Slit og naflalokkur á meðgöngu?

Spurning:
Heil og sæl!
Ég er með 3 spurningar í sambandi við meðgöngu.
Ég er 22 ára og komin 4 og hálfan mánuð á leið með fyrsta barn og er byrjuð að fá háræðaslit á lappirnar. Ég vinn rosalega mikið og stend mikið. Er eitthvað hægt að gera til að koma í veg fyrir slitið?
Hvaða olía eða krem er best að nota til að komast í veg fyrir að slitna á maga, baki, rass og læri?
Einnig var ég með naflalokk en var að taka hann úr. Ég hef heyrt að konur geti slitnað út frá örinu (gatinu), á að taka naflalokkinn úr eða á að vera með hann í alla meðgönguna?  Hverju getur hann valdið?

Takk fyrir góða síðu.
Kveðja.

Svar:
Besta ráðið við æðahnútum og háræðasliti á fótum er að nota sjúkrasokka yfir daginn, sérstaklega þegar þú þarft að standa lengi. Einnig getur verið gott að hækka aðeins undir fótum á nóttinni.

Ekki hefur verið sýnt fram á að neitt krem eða olía geti komið í veg fyrir húðslit á meðgöngu, þar sem það eru neðri lög húðarinnar sem slitna, en mörgum konum finnst gott að bera krem á húðina þar sem mesta togið kemur og skiptir ekki öllu máli hvaða krem það er, bara að það sé mjúkt og rakagefandi.

Þar sem naflalokkurinn er á svæði sem er viðkvæmt fyrir sliti vill oft slitna út frá örinu eftir hann. Ekki skiptir öllu máli hvort hann er í eða ekki, slitið kemur samt ef það kemur á annað borð. Þegar líður á meðgöngu finnst flestum konum betra að losna við lokkinn þar sem hann veldur oft ertingu þegar stækkandi bumban fer að toga gatið í sundur.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir