Smá blóð og komin 5 vikur?

Spurning:
Halló.
Ég er komin 5 vikur og 4 daga samkvæmt fyrsta degi síðustu blæðinga. Í nótt fór ég á klósettið og það komu 2 dropar af blóði, er það eðlilegt? Takk fyrir. Ein hrædd!

Svar:
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
Eins og þú lýsir þessu þá er þetta óveruleg blæðing. Gæti komið eftir samfarir eða frá leghálsinum sem er mjög blóðríkur og viðkvæmur á meðgöngu. Ég myndi bíða og sjá til því stundum kemur líka smá blæðing á fyrstu vikunum þegar eggið er að festa sig í leginu svokölluð bólfestublæðing og stundum kemur þetta fyrir á þeim tíma þegar þú hefðir átt að hafa blæðingar. Ég vona að blæðingin sé hætt og þér gangi vel með meðgönguna. Ef þú hefur áhyggjur og ef blæðingin verður meiri þá myndi ég ráðleggja þér að panta tíma hjá ljósmóður í mæðravernd og spjalla við hana eða hjá fæðinga og kvensjúkdómalækni.

Ásthildur Gestsdóttir ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.