Sonur minn er mótþróagjarn

Spurning:

Komið þið sæl.

Mig langaði að vita hvort þið gætuð hjálpað mér. Ég á 8 ára gamlan son sem ég hef alltaf verið í töluverðum vandræðum með, en nú er svo komið að ég finn að hann er að koma upp mynstri á heimilinu sem líkist því sem m.a. fjölskyldur alkahólista og þeirra sem beita ofbeldi búa við. Eins og gefur að skilja er ég ekki sátt við þetta.

Sonur minn var mjög mótþróagjarn alveg frá fæðingu. Þegar hann var nokkurra vikna gamall þurfti tvo til að setja á hann bleiu! Hann átti líka til að neita að fara úr fötum eða í þau og ef ég setti hann bara samt í fötin fór hann jafnharðan úr þeim aftur og öfugt. Þegar hann var tveggja ára slitum við pabbi hans sambúð (sem var erfið) og þá komu fram töluverð sorgarviðbrögð hjá honum. Ég áttaði mig þó ekki strax á því að um sorgarviðbrögð væri að ræða og náði því ekki alltaf að bregðast rétt við. Frá þeim tíma og til ca. 5 ára átti hann til að taka svo mikil reiðiköst að ég varð að halda honum föstum í fanginu til að hann færi ekki sjálfum sér og öðrum að voða. Upp úr 5 ára fór svo sem betur fer að draga úr tíðni þessara kasta. Ég kynntist núverandi sambýlismanni mínum um þetta leyti (þ.e. fyrir 3 1/2 ári síðan). Hann er mjög traustur og góður, og hefur alltaf verið mjög góður við strákinn. Við höfum alltaf haft skýrar reglur um uppeldið og erum sammála um hvernig því skuli hagað. Samt sem áður er ástandið slæmt í dag. Hann neitar hreinlega að hlýða mér, er uppstökkur, með allskyns ljótan munnsöfnuð, grýtir hlutum, eyðileggur hluti o.s.frv. Það er hræðilegt að vekja hann þá morgna sem þess þarf (þess vegna fer hann snemma að sofa svo hann vakni helst sjálfur) því það tekur um hálftíma að vekja hann og þá er hann svo illur að maður er úrvinda af að eiga við hann og koma honum í skólann. Það er líka algjört kvalræði að láta hann læra heima. Hann nennir því ekki, þannig að ég hef reynt að sitja með honum og hjálpa honum, en þá argar hann og gargar á mig og úthúðar mér alveg því „ég er svo vitlaus og kann þetta ekki“ og þ.h. Fyrir stuttu fór hann í veskið mitt og tók þaðan 200 kr. til að kaupa bland í poka. Það er hlutur sem ég hef passað sérstaklega upp á, þ.e. að láta hann ekki venjast því að ganga í veskið mitt (pabbi hans gerði það nefnilega, í mína óþökk) og hef aldrei leyft það. Hinsvegar er venja að á laugardögum hefur hann fengið 100 kr. til að kaupa bland í poka því þá er nammidagur, svo hann hefur ekki ástæðu til að sækja sér peningana án leyfis. Þetta eru svona í megin atriðum það sem við erum að kljást við með hann, fyrir utan það að hann vætir rúmið á nóttunni og buxurnar á daginn. Hann er reyndar á lyfjum (Minirin) sem draga úr því, en stöðva það ekki alveg.
Hvert á ég að leita eftir aðstoð?
Ég hef farið með hann til Stefáns Hreiðarssonar, barnalæknis, sem sagði hann vera með „andstöðu-þrjósku-röskun“ (ODD). Getur það verið orsökin fyrir þessu, eða er eitthvað annað sem gæti verið að, t.d. geðsjúkdómur?
Er mögulegt að athyglisbrestur m/ofvirkni(ADHD) eða þ.h. gæti greinst núna þó það hafi ekki gert það fyrir 3 árum?
Mikið þætti mér vænt um ef þið gætuð sagt mér hvert ég get leitað, því ég er alveg að niðurlotum komin.

Með kærri kveðju.

Svar:

Svar við fyrirspurn um 8 ára gamlan dreng.

Þetta er talsvert löng og ítarleg lýsing á hegðun og samskiptum drengsins og þið upppalendurnir virðist búa við þungt og stöðugt álag auk þess sem hegðun drengsins fer versnandi samkvæmt lýsingu, þrátt fyrir gott aðhald á heimilinu og vitund ykkar um þétt hegðunarmörk. Ég held hins vegar ekki að drengurinn sé (á grundvelli þessarrar lýsingar) geðveikur. Frekar er um röskun á hegðun og persónuleikaþroska að ræða.

Það virðist vera nokkuð ljóst að það þarf að hugsa dæmið nokkur ár fram í tímann og gera áætlanir um persónuleika- og hegðunarmótun til þess að draga úr andfélagslegum slagkrafti í framferði drengsins en „mótþróaþrjóskuröskun” er gjarnan undanfari „erfiðrar hegðunar” og „andfélagslegs persónuleika”. Drengurinn er þó á frjóu mótunarskeiði svo ef drjúg vinn er lögð í uppeldið mun það skila árangri. Hins vegar þarfnist þið góðrar aðstoðar og stuðnings.
Í þessu sambandi mæli ég með því að þið leitið eftir aðstoð hjá fræðslu- og ráðgjafaþjónustunni EIRÐ (Suðurlandsbraut 6) og þeim sálfræðingum er þar starfa.

Kveðja,
Einar Ingi Magnússon, sálfræðingur