Sonur minn er síveikur með of hátt sökk?

Spurning:
Halló!
Mig langaði aðeins að spyrja út í sökk (CRP) í blóði. Þannig er mál með vexti að 15 mánaða gamall sonur minn hefur verið síveikur meira og minna síðan í haust (hefur reyndar verið með kvef síðan að hann var 2 mánaða) fékk rör 7 mánaða, er asmabarn og hefur fengið lungnabólgu 2 sinnum síðan í október (er ekki á leikskóla né hjá dagmömmu) nú veiktist hann enn og aftur um daginn og var ég send með hann upp á spítala og þar mældist sökkið 237 þannig að hann fékk sýklalyf í æð og tekin lungnamynd sem var svona lala, kannski lungnabólga en skýrði samt ekki sökkið, eins var með ennnis- og kinnholur, ekkert í þvaginu en hann fékk lyf í æð í 3 daga og penslín með sér heim og var þá sökkið komið í 65 en 3 dögum seinna er hann kominn með einhverja veirusýkingu með háan hita ofan í allt hitt og sökkið hækkar upp í 100. Spurningin mín er hvort ekki þurfi að athuga vel hvað gæti legið að baki þessu eða er eðlilegt að sökk verði svona hátt og ekkert sérstakt skýri það?
Kær kveðja.

Svar:

Sæl.
Sökk er ekki það sama og CRP. Sökk mælir hversu mikið rauð blóðkorn falla (mm) í röri á ákveðnum tíma en CRP (C reactive protein) mælir magn af prótíni í blóði sem framleitt er af lifrinni. Hins vegar hækka bæði í bólgusjúkdómum og einkum og sér í lagi við bakteríusýkingar. CRP getur einnig hækkað mikið við sumar veirusýkingar og það virðist einnig einstaklingsbundið hversu mikið CRP hækkar. Hins vegar geta þessar mælingar aldrei annað en gefið vísbendingar um hvað sé að; þær geta ekki gefið greininguna á því hvað er undirliggjandi. Þannig verður að túlka mælinguna út frá hverjum einstaklingi og hvað saga, skoðun og aðrar rannsóknir sýna.
Ég er sammála að kanna þarf vel hvað býr að baki ef barn er með hita og hátt CRP. Ég hef þó enga ástæðu til að ætla að svo hafi ekki verið í þínu tilfelli.
 
 
kveðja
Þórólfur Guðnason