Sonur minn er svo óhamingjusamur, hvað get ég gert?

Spurning:

Sæll.

Ég hef miklar áhyggjur af syni mínum. Hann er 19 ára og mjög feiminn að eðlisfari. En þegar hann getur ekki lengur talað við fjölskylduna þá finnst mér það benda til þess að það sé eitthvað meira
en feimni. Hann þorir ekki í búð einn og hann er mjög vinafár, á ekki neinn vin eftir því hann þorir ekki lengur að hringja í þá.

Hann var mjög hress og mikill gaur sem barn, hræddist ekkert og fannst mjög gaman að stríða og skopast.

Hann er mjög háður mér sambandi við bankamál og fleira. Hann hringir ekki sjálfur í banka til að millifæra fyrir sjálfan sig. Ég hélt
að hann mundi fara meira út þegar hann fengi bílpróf en það varð ekki. Hann fer ekki einu sinni á rúntinn.

Hvað er hægt að gera við svona fælni? Ég er búin að reyna að fá
hann með mér til sálfræðings, en hann neitar alltaf. Ef ég reyni að fá upp úr honum hvað ami að, svarar hann mér ekki. Það er eins og hann sé að springa. Ég veit ekki hvernig ég get hjálpað honum þegar hann vill ekki hjálpa sér sjálfur, en það nístir mig að horfa upp á hann svona óhamingjusaman.

Með fyrirfram þökkum,
áhyggjufull móðir.

Svar:

Kæra áhyggjufulla móðir.

Ég skil vel að þú hafir áhyggjur af syni þínum. Ef eitthvað er okkur mikilvægt er það vellíðan barnanna okkar. Það er eitthvað sem er að plaga son þinn og greinilega hafa orðið miklar breytingar á
honum. Af þessari lýsingu er ekki hægt að fullyrða mikið hvað kunni að vera að. Ég er hins vegar nokkuð viss um að það er hægt að hjálpa honum.

Til þess að það gangi þarf hann að vera með og vilja leita sér hjálpar – og þar stendur hnífurinn í kúnni. Þú skalt samt halda áfram að reyna því umhyggjan gerir ekkert nema gott. Svo gæti verið gagnlegt fyrir þig að leita til einhvers sjálf. Tilgangurinn með því væri að reyna að skýra hvað væri að plaga strák og fá hugmyndir um hvað þú gætir gert til þess að fá son þinn til þess að leita hjálpar. Fyrsta skrefið gæti verið heimilislæknir en þú gætir líka leitað til hvaða sálfræðings sem er.

Bestu kveðjur með ósk um gott gengi,

Hörður Þorgilsson,
sálfræðingur