Spurning:
Sæl vertu Dagný.
Sonur minn er að verða 10 vikna og er heilsuhraustur, en það er vika frá því að það var erfitt að gefa honum að drekka. Hann er að sjálfsögðu á brjóstamjólk hjá móður sinni ennþá.
Hann sefur vært á næturnar og er nokkuð breytilegur hvað þetta vandamál snertir frá degi til dags en málið er að þegar strákurinn er lagður á brjóst, fer hann að pirrast og grætur stundum sárt. Það skrítna við þetta er að hann dregur ekki fætur sínar að kvið heldur engist hann og sperrir sig stífan í allar áttir. Þetta gerist líka stundum hjá honum þegar hann er að rembast en ekkert gerist. Það er eins og að hann sé að reyna að kúka en honum tekst það ekki. Getur þetta verið mjólkuróþol?
Annar hlutur sem vekur upp spurningu hjá okkur er þegar við höldum á honum í sitjandi stellingu (líður best í henni) á hann til að stífna allur upp í u.þ.b 2-8 sek., lætur ekkert í sér heyra á meðan, andar ekki en grætur á eftir sárum gráti. Okkur var bent á að þetta gæti verið loftvandamál, sem að ég tel að þetta sé. Við höfum notað Minifom dropana, en hvort sem við notum þá eða ekki, sjáum við engan mun á honum. Móðir er, samkvæmt læknisráði, hætt að borða allt sem heitir mjólkurvörur í nokkra daga til að athuga hvort þetta geti verið mjólkuróþol. Getur þú gefið okkur þína skoðun á þessu eða leiðbeint okkur á einhvern hátt með þetta vandamál okkar.
Kær kveðja.
Svar:
Sæl.
Það fyrsta sem mér flýgur í hug þegar ég les lýsingu þína á vandamáli drengsins er vélindabakflæði. Bæði það að hann stífnar og sperrir sig og líka að honum virðist líða best uppisitjandi. Mér finnst hæpið að þetta sé mjólkuróþol eða vindgangur en það má þó vera. Ef um vélindabakflæði er að ræða er besta ráðið að gefa drengnum brjóstið þannig að hann sé nánast sitjandi, láta hann ropa snemma í gjöfinni og oft í hverri gjöf og láta hann drekka vel úr fyrra brjóstinu áður en það seinna er boðið. Ef honum virðist líða voða illa er vitaskuld sjálfsagt að fara með hann til læknis og fá nýtt mat á ástandinu. Oft eru börn sett á lyf ef um mjög erfitt vélindabakflæði er að ræða.
Vona að þetta fari allt vel,
Dagný Zoega, ljósmóðir