Spurningar um Activelle

Spurning:

Sæll!

Mér hefur verið ráðlagt að taka activelle en ég las um með- og frávirkni á netinu hjá ykkur og þá vöknuðu eftirfarandi spurningar: Algengar aukaverkanir voru m.a. þyngdarbreytingar, þunglyndi og svefnleysi. Ég er fertug og búin með breytingarskeiðið sem mér er sagt vera óvenjulegt m.v aldur. Var samt ráðlagt að taka activelle (var tilbúin til að sleppa við blæðingar) vegna m.a. hættu á beinþynningu og aukaverkunum s.s. svitakófi. Undanfarin ár hef ég ekki fundið fyrir „hjáverkunum" breytingarskeiðsins; vissi reyndar ekki af þeim. Ég fór í beinþéttnimælingu og fékk þær niðurstöður að ég væri 10% betur sett en ég ætti að vera m.v. aldur. Er samt ástæða fyrir mig til að byrja að taka Activelle; fyrst ég er svona vel á mig komin varðandi kalkbúskap, kolesteról, blóðþrýsting og allt hitt sem ég komst svo vel frá við læknisskoðun? Ef töflurnar myndu t.d. valda þyngdaraukningu, þunglyndi og svefnleysi; er ég ekki betur sett án þeirra fyrst um sinn? Hvenær telur þú að ég ætti að byrja að taka þær?

Kveðja,

Svar:

Ég geri ráð fyrir að þú hafir verið sett á lyfið til að varna beinþynningu þar sem að óþægindi hjá þér sem rekja má til breytingarskeiðsins eru lítil sem engin. Þegar um fyrirbyggjandi meðferð er að ræða eins og í þínu tilviki er alltaf spurning um hvort og þá hvenær er best að hefja meðferð. Þá er oft litið til áhættunnar. Með þessri meðferð er verið að varna beinþynningu en algengt er að eldri konur beinbrotni. Eftir 20-30 ár gætir þú verið komin í áhættu, hugsanlega fyrr.

Það eru alls ekki allir sem fá aukaverkanir af lyfjum og ef lyfjagjöfin, eins og í þessu tilviki, þolist vel og þú upplifir litlar sem engar aukaverkanir þá er sjálfsagt að halda áfram. Ávinningurinn er það mikill bæði fyrir þig og þjóðfélagið (beinbrot kosta mikið). En ef þú ferð að finna fyrir óþægindum vegna lyfjatökunnar þá er sjálfsagt að endurskoða hana. Þá er spurning hvort að annað lyf gæti hentað betur eða hvort hreinlega á að fresta lyfjagjöfinni.

Hægt er að minnka líkur á beinþynningu með réttu mataræði og hreyfingu, en mjög mikilvægt er að hreyfa sig til að viðhalda styrk beinanna.

Ef þú vilt hætta töku lyfsins, ræddu það þá við lækninn þinn en ef þú verður ekki fyrir neinum óþægindum af lyfjatökunni þá mæli ég með að þú haldir áfram að taka þær. Mundu bara að best er að taka þær alltaf á svipuðum tíma dags.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur