Spurningar um klamydíu

Spurning:

Sæll.

Ég er nokkrar spurningar í sambandi við kynsjúkdóminn klamydíu.
Þannig er að ég greindist með klamydíu núna í vikunni. Ég hef sterkan grun um að þetta komi frekar frá mér en kærastanum mínum, því ég er búin að vera með svo mikil einkenni. Núna er ég komin á lyf og læknirinn sagði að við mættum ekki stunda kynlíf í viku án þess að nota smokk?

það er líka annað, ég nota álfabikarinn, er smitið í honum?
þarf ég að henda honum eða meðhöndla hann sérstaklega?
Að lokum langar mig að vita hvort þetta lifi í nærfötum og hvernig ég drep það þá?

Með fyrirfram þökkum.

p.s. Hversu langan tíma tekur að verða ófrjór af klamydíu?

Svar:

Sæl.

Ef þú ert að fá lyf við Klamydíu þá vona ég að kærastinn sé einnig að taka lyf, annars er það til einskis. Það að þú sért með mikil einkenni en ekki kærastinn þinn þarf ekki að þýða að þetta sé frá þér komið.

Það borgar sig að bíða þessa viku og stunda ekki kynlíf á meðan. Þó svo að smokkar auki öryggið, þá er ekki til neitt sem heitir öruggt kynlíf (bara öruggara kynlíf).

Klamydían vill vera þar sem er hlýtt og rakt annars deyr hún, þess vegna er álfabikarinn þinn sennilega ekki með smit. Þú skalt þrífa hann vel og ef þér finnst það öruggara, geyma hann eina nótt í ísskápnum!

Það sama á við nærföt, rúmföt, handklæði og slíka hluti, Klamydía lifir ekki af þar.

Af 100 konum sem ganga með Klamýdíu án þess að vita það fá 20 slæmar bólgur í móðurlíf. Af þessum 20 verða 4 ófrjóar, aðrar 4 fá slæma króníska verki og aðrar 2 lenda í lífshættu vegna utanlegsfósturs.
Þetta á sem sagt ekki við um þær sem fá lyfjameðferð. Því getur þú verið óhrædd. Ef þú ferð eftir því sem læknirinn segir eru allar líkur á að þetta læknist.

Ef þú veist ekki af því að þú sért með Klamydíu er erfitt að segja til um hversu lengi smitið hefur verið, en það geta verið nokkur ár.

Kveðja,
F.h. Félags um forvarnir læknanema, forvarnir.com
Jón þorkell Einarsson, læknanemi