Spurningar um samskipti, þunglyndi og einelti?

Spurning:
Hæ, hæ.
Ég var inni á umræðuvef um einelti núna áðan og fann fyrir svo mikill þörf fyrir að tjá mig og fá svör. Ég hef átt erfiða ævi og byrjaði það á einelti í skóla. Ég upplifi einhvern veginn eineltið sem ég lenti í sem grunninn af öllum mínum hörmungum, ekki það að ég sé að leita að neinum sökudólgi, ég ber ábyrgð á mínu lífi sjálf og nóg er svo sem af hjálp í boði, heldur er ég bara að líta kalt á staðreyndir.
Ég varð fyrir einelti allan minn grunnskólaferil og braut það mig mikið niður. Ég náði að hluta til að vinna mig út úr þessu, kynntist nýju fólki sem tók mér vel og allt það en reynslan sat í mér. Ég fór að drekka, lenti í misnotkun, nauðgunum, anorexiu, alkóhólisma, datt úr skóla þrátt fyrir mikla hæfileika o.s.frv. Ég veit ca. afhverju ég lenti í einelti, ég var yngri en hinir þvi ég var hækkuð upp um bekk, átti auðvelt með námið og hafði gaman að því, ég var mjög grönn, kurteis og gekk í fötum af bræðrum mínum svo eitthvað sé nefnt. Ég var skemmtilegt og fjörugt barn en hef legið vel við höggi því ég trúði engu illu upp á neinn, varð sár ef einhver gerði grín að mér o.s.frv. Í dag er ég búin að vera að vinna í sjálfri mér síðan á unglingsárunum, hef farið til félagsráðgjafa, sálfræðinga, meðferð hjá SÁÁ, er í AA og var í mikilli vinnu hjá Stígamótum ásamt fleiru. Ég hef náð langt, er uppfull af visku og er mikið í að hjálpa öðrum sem mér þykir mjög gefandi. Ég á yndislega að, á góða foreldra, 3 dásamleg börn og er á lífi. En ég er engan veginn hamingjusöm.
Ég hef náð að vinna mig út úr því mikla svartnætti sem umlukti mitt líf, lifi ekki lengur tortímandi lífi, neyti ekki vímuefna, er þokkalega ábyrg, er ekki viðkvæm gagnvart því að tala um mína reynslu, en ég er ekki hamingjusöm. Ég er reyndar veik þannig að ég get ekki unnið, get illa treyst á sjálfan mig því ég veit aldrei í hve góðu standi ég verð þennan daginn, á marga góða vini en á erfitt með að halda sambandi við þá og samband mitt við manninn minn er ekki upp a marga fiska.
Svo ég fari nú að beina þessari ræðu minni inn á þær brautir sem ég ætlaði á þá er eitt sem ég hugsa um núna nær daglega og það er hvort maðurinn minn sé að halda mér niðri. Ég hef allar þessar lausnir, ég veit nákvæmlega til hvaða aðgerða ég þarf að grípa til að verða hamingjusöm og sátt en einhverra hluta vegna held ég aftur af mér. Ég ráðlegg fólki nær daglega og fæ oft þakkir fyrir að bjarga lífi fólks með góðum ráðum en sjálf geri ég ekki nóg og ég er orðin langþreytt eftir 10 ára langa, stanslausa baráttu. Málið er að á margan hátt eigum við vel saman, við eigum líka fortíð, vinnum bæði í okkar málum og erum meðvituð, höfum sömu áhugamál og eigum náttúrulega börn saman. En hann vill ekkert með mér gera, ég upplifi enga ást, mér finnst hann svo gagnrýninn, alltaf með pirringskomment, andvarpar alltaf stórum ef ég bið hann um að gera eitthvað….. það sem ég er að ýja að er að ég upplifi ákveðið einelti frá honum. Með honum upplifi ég svipaðar tilfinningar og ég upplifði sem barn, ekkert er rétt sem ég geri, það er ekkert gaman að vera með mér, hann nennir aldrei heldur að gera neitt sem fjölskylda því þá er ég mest pirrandi í heimi, einstaka sinnum er ég bara ágæt en verð svo aftur ómöguleg og ég er orðin svo ráðalaus. Ég var mikil félagsvera þegar við kynntumst en núna umgengst ég varla fólk því ég er löngu farin að trúa því að ég sé svona leiðinleg, dragbítur á aðra.
Einu sinni fór ég frá honum í 3 mánuði og það var besti tími okkar sambands, ég var ánægðari og öruggari og hann betri við mig, þess vegna fór ég aftur til hans. Ég veit að þetta er meðvirkni en hvenær er nóg? Ég vil eiga gott líf og geta unnið að mínum málum með honum en við erum búin að vera saman í 9 ár og þetta er alltaf basl. Ég veit að hann á bágt, er þunglyndur og allt það, en á hverjum degi bið ég um lottóvinning eða eitthvað svo ég þurfi ekki að vera svona háð honum. Ég er óvinnufær vegna slyss og þarf því bæði á tekjum hans að halda og hjálp með krakkana þegar ég er ekki nógu góð til heilsunnar. Ég vildi óska þess að ég kæmist í þá stöðu að geta verið án hans, þá gæti ég kannski fundið það hjá mér hvort ég vilji hann. Hann er góður maður og þegar hann er í góðu formi þá erum við rosa góð saman, en mér finnst samband okkar algjörlega fara eftir honum. Ef hann er í góðu formi þá er yfirleitt allt gott. Ef ég er hins vegar í ágætis formi, reyni að draga hann út, hlusta ekki á nöldrið, er ekki meðvirk með honum o.s.frv. þá verður samband okkar samt sem áður ekki gott. Mér finnst hann hreinlega leiðinlegur, þótt ég þekki hann alveg þrælskemmtilegan, það er bara svo sjaldan sem hann lætur ljós sitt skína. Ég er ráðalaus. Mig langar að vera hamingjusöm en hugsa í hringi allan daginn. Ef ég fer frá honum þá minnka tekjurnar, hvaðan á ég að fá hjálp þegar ég er veik, þá hef ég engan bíl, ég nenni ekki að fara að finna annan mann og blabla. Ef ég verð með honum hvað á ég þá að gera? Mér finnst ég búin að reyna allt og hafa ekki orku til að gera neitt….arg! Ég er endalaust að hjálpa öðrum og það virðist virka vel en í mínu lífi finnst mér ég alveg vera stopp, hvað á ég að gera? Kveðja, ein ráðalaus

Svar:
Sæl,
Það sem er greinilega þinn styrkleiki er að þú virðist mjög meðvituð um líðan þína og tilfinningar og getur auðveldlega greint stöðuna sem þú ert í og velt upp mismunandi möguleikum út úr henni. 

Ég er sammála þér að þessi staða er alls ekki góð og þú virðist vera nokkuð hjálparlaus í henni.  Því þarft þú auðvitað að breyta.  Það er ekki ásættanleg staða í lífinu að finnast maður vera pikkfastur og geta sig hvergi hreyft.  Ég held að það að finnast maður hafa stjórn á lífi sínu skipti sköpum í því að vera hamingjusamur.  Miðað við söguna þína þá er ekki nóg með að þú segist ekki vera hamingjusöm heldur gildir það sama um manninn þinn.  Þú segist vita að hann sé þunglyndur og eigi bágt.  Mér finnst það þess vegna nokkuð ljóst að það er alveg sama hvað þú vinnur mikið í sjálfri þér þá nær það ekki að leysa hans vandamál.  Hann þarf auðvitað sjálfur að skoða sín vandamál.  Ég myndi auðvitað hvetja hann til þess að finna einhvern til að ræða sín mál við, hvort sem það er fagaðili eða góður vinur.  Þú segir að hann geti verið skemmtilegur þegar hann er í góðu formi!  Auðvitað væri best að hann kæmi sér í betra form en líklega þarftu að ýta mikið við honum svo að það gerist.  Mér finnst nokkuð ljóst að þú þarft að leggja spilin á borðið gagnvart honum.  Þú þarft að segja honum nákvæmlega það sem þú skrifaðir, þ.e. að staðan eins og hún er núna sé ekki ásættanleg og breytinga sé þörf eigi þetta samband að lifa áfram.  Þú þarft líka að kynna þér þín réttindi og möguleika ef þú kýst skilnaðarleiðina.  Fáðu viðtal hjá félagsráðgjafa og fáðu upplýsingar um þær bætur sem þú ættir rétt á sem einstæð móðir.  Reiknaðu þetta dæmi út fjárhagslega svo þú vitir nákvæmlega hvar þú stendur.  Það að þú sért alvarlega að íhuga skilnað hlýtur að sýna honum fram á alvarleika ástandsins.  Þá er það líka undir honum komið hvort hann vill leggja eitthvað á sig til að bjarga sambandinu. 

Að sjálfsögðu væri líka best fyrir ykkur að fara í hjónabandsráðgjöf þar sem þið gætuð talað við hlutlausan aðila.  Þú getur ekki lagað hjónabandið einhliða.  Það sem þú getur hins vegar gert er að taka frumkvæði í því að fara fram á breytingar hverjar sem þær kunna að verða.  Að lokum mæli ég með því að þú fáir þér líka handleiðslu eða ráðgjöf fagaðila á meðan þú ert að fara í gegnum þetta ferli.  Mér finnst af skrifum þínum að dæma að þú vitir alveg sjálf hvað þarf að gera en kannski þarftu bara betri stuðning til þess að styrkja þig í trúnni í því að það sem þú vilt gera sé það rétta.  Ef þú ert ekki örugg með það er hættan sú að þú sitjir áfram föst vegna hræðslu við að breytingarnar verði ekki til hins betra.

Að lokum langar mig að benda þér á sjálfshjálparhópa sem hittast í húsi Geðhjálpar í Túngötu 7, vikulega.  Það gæti verið gott fyrir þig að eiga bakland í slíkum hópi, t.d. í eineltishópnum sem hittist alltaf á þriðjudögum kl. 20.00.  Ef hann gæti hugsað sér að taka þátt í svona hópi þá hittist þunglyndishópurinn á fimmtudögum kl. 17.30. 

Gangi þér sem allra best,

Guðbjörg Daníelsdóttir, sálfræðingur hjá Geðhjálp.