Stelsýki hjá 5 ára dreng

Spurning:

Ég er að leita að svari við stelsýki. 5 ára drengur sem stelur segist verða að stela. Svo er honum oftast sama um þýfið, sem aðallega eru kreditkort, lyklar, hnífar, eldspýtur, kveikjarar og peningar.

Geturðu látið mig vita hvar ég get fengið hjálp fyrir hann.

Virðingarfyllst.

Svar:

Komdu sæl og þakka þér fyrirspurnina.

Í efnisfyrirsögn bréfsins frá þér segir „Sjúkdómurinn fannst ekki“. Ég er hins vegar ekki viss um að það sé sjúkdómur, svona eins og mislingar eða flensa, sem þjáir 5 ára gamalt barn sem stelur, þótt við notum orðið „sýki“ í daglegu tali um hegðun sem gerist mjög oft. Í því sambandi ræð ég það af bréfi þínu að ekki sé um einstakt tilvik að ræða, heldur eitthvert viðvarandi ástand. Andfélagsleg hegðun af þessu tagi er líklegast eitt af því sem foreldrar vilja síst sjá í fari barna sinna. Nú lýsir þú að vísu ekki öðrum þáttum í fari drengsins, en þegar börn eru farin að stela oft svona ung, þá er það því miður stundum vísbending um að þau eigi eftir að lenda í fleiri og flóknari erfiðleikum þegar þau stálpast ef ekkert er að gert. Að öllum líkindum hangir einnig eitthvað fleira á spýtunni í máli hans sem nauðsynlegt er að skoða og greina.

Í símaskránni finnur þú nöfn fjölda sálfræðinga sem hægt er að leita til vegna vanda í fari barna. Einnig vil ég benda þér á að hægt er að leita til félagsþjónustu og heilsugæslu.

Nú veit ég hins vegar ekki hvar á landinu þú býrð, en atferlisfræðingur er starfandi á Selfossi og einnig nokkrir á höfuðborgarsvæðinu, þ.m.t. undirrituð.

Í bréfinu frá þér kemur ekki fram hvort þú ert móðir drengsins eða hvort þú kemur að máli hans með öðrum hætti, en þér er velkomið að hafa samband við mig í síma 562 14 67 vegna málsins. Ef til kæmi og ég tæki málið að mér yrði það unnið fyrst og fremst með foreldrum drengsins og öðrum fullorðnum sem hugsa um hann daglega, s.s. leikskólakennurum.

Ég vona að þetta hjálpi eitthvað.

Guðríður Adda Ragnarsdóttir atferlisfræðingur.