Getur sterasprauta til að gera lungu virk ef framkalla þarf fæðingu, haft varanleg áhrif á einhvern hátt á barnið eftir fæðingu?
Ljósmóðirin sem skoðaði fóstur og móður fannst fóstrið vera of stórt miðað við meðgöngutíma.
Tengdadóttir mín fékk slíka sprautu, ath. var um sykursýki en hún var ekki til staðar í þessu tilfelli. Þegar barnið var svo fætt var það ekki nema rúmar 17merkur og móðir hafði verið hraust á meðgöngu, einnig fóstrið þ.e. ekkert athugavert kom fram við skoðanir, nema að ljósmóðirin taldi fóstrið óeðlilega stórt og því var framkölluð fæðing áður en móðir var fullgengin með og gefin sterasprauta fyrir lungu fósturs, eins og áður hefur komið fram. Hafa verið gerðar einhverjar rannsóknir hvort svona inngrip geti haft einhver áhrif?
Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina
Lyf til að flyta fyrir þroska lungna barna á meðgöngu hafa verið notuð í mörg ár með afar góðum árangri og hafa ekki sýnt annað en jákvæð áhrif á þau börn. Áður en menn byrja að gefa lyf í svona aðstæðum liggja ætíð að baki umfangsmiklar rannsóknir. Slík lyfjagjöf er ekki framkvæmd nema að vel athuguðu máli sem er byggt á mörgum þáttum og afar flóknu samspili þeirra á milli. Þetta er ekki ákvörðun sem ljósmóðirin ein tekur.
Ég hvet þig/ykkur til þess að ræða hugleiðingar ykkar við fagaðila, barnalækni og ljósmóður til dæmis.
Gangi ykkur vel
Guðrún Gyða Hauksdóttir