Sterk lykt

Karlmaður spyr. Hver er helsta ástæða, á sterkri lykt af kynfærum eftir sextugt, ekki óþrif !

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina

Ef viðkomandi fer daglega í sturtu, þrífur vel undir forhúð  eða skapabörmum og fer í hrein nærföt ætti ekki að vera önnur lykt af kynfærunum frekar en öðrum svæðum líkamans.

Ýmis bragðsterk eða sterklyktandi matvæli geta framkallað sterka líkamslykt þegar efnin berast út í svitakirtlana og blandast við líkamsflóruna  en það ætti ekki að eiga frekar við um kynfærin heldur en önnur svæði líkamans sem lítið loft leikur um svo sem undir höndum.

Aldur hefur að sama skapi lítið um þetta að segja. Vissulega þránar líkamsfítan okkar með aldrinum og lyktin af okkur breytist þess vegna en það á ekki eingöngu við um kynfærin frekar en önnur svæði líkamans.

Með kveðju

Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur