Spurning:
Mig langar að vita hvort það sé eðlilegt að fá sára stingi niður leggöngin og kúlan harðnar, ég er komin 29 vikur á leið. Þetta er mín önnur meðganga. Ég fékk meðgöngueitrun í síðustu fæðingu svo að ég er smá smeyk við allt svona. Ég vona að þú getir einhvað frætt mig um þetta, ég verð eitthvað svo stressuð þegar svona kemur. Er alveg eðlilegt líka að geta ekki sofið almennilega á nóttunni? Ég vakna við minnsta þrusk svo að ég er orðin svolítið þreytt (reyndar mikið) og kem þar af leiðandi ekki neinu í verk á daginn. Með von um svar. Ein kvíðafull.
Svar:
Sæl
Það getur verið merki um að leghálsinn sé að mýkjast og opnast ef stingur kemur ofan í leggöngin um leið og kúlan harðnar. Þetta er mjög algengt þegar líður að lokum meðgöngu en þar sem þú ert ekki gengin nema 29 vikur tel ég réttast að þú látir ljósmóðurina þína vita og lækni líta á þig til að útiloka að leghálsinn sé farinn að opna sig.
Hvað varðar þreytuna þá er þetta nú algengasta kvörtun kvenna á meðgöngu. Við vorum nefnilega ekki hannaðar til að vinna allan daginn. Besta ráðið sem ég get gefið þér er að draga úr kröfunum. Það er allt í lagi að láta húsverkin sitja á hakanum meðan gengið er með barn og svo eru eiginmenn og aðrir fjölskyldumeðlimir ágætir við heimilisstörfin ef þeir fá að gera þau á sinn hátt. Ef þú hefur tök á að taka þér hlé í vinnunni um miðjan daginn er það gott og svo er alveg nauðsynlegt að leggja sig þegar heim er komið úr vinnu.
Gættu einnig að mataræðinu – hollt og fjölbreytt, helst án aukaefna og nóg af vatni. Gönguferð fyrir svefninn er til bóta og svo eru það bara eyrnatapparnir ef næturhljóðin trufla þig.
Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir