Spurning:
Ég er með stöðugan kláða í augnkrókunum, sérstaklega á morgnana. Í fyrra fékk ég mikla sýkingu í augun útaf linsum og þetta gæti alveg stafað af því, en nú nota ég linsur bara ef ég fer eitthvað út, sem er sjaldan þessa dagana. Ég er alltaf með gleraugu núna og fékk höfnun þegar mig langaði að laga sjónina með því að fá lazer-meðferð. Það safnast mikið slím í augunum sem gerir það að verkum að ég er alltaf að taka slímið, annars flækist það fyrir mér og ég sé þoku, en ekki þannig að hún þekji allt augað.
Mér var sagt, eftir að ég fékk höfnun að það væri enn von, því önnur tegund aðgerðar væri að koma eftir eitt eða tvö ár, þá verði settar linsur inní augað, bakvið augasteininn og mig langar mikið að fá sjón svo ég geti farðað mig almennilega fyrir árshátíðir o.fl. Ég sé ekki neitt þegar ég tek gleraugun af og ætla að mála mig og verð mjög pirruð, sérstaklega því ég lærði förðun og gæti gert betur. Hvað ef þriðjungi manns verður neitað um þessa nýju tegund aðgerðar alveg eins og með lazer? Ég hef miklar áhyggjur af því að vera neitað eftir alla biðina, svo væri ég kannski búin að safna fyrir aðgerðinni. Það væri mér mikils virði að komast í aðgerð, en hvað er hægt að gera við þessum kláða? Með fyrirfram þakklæti um svar.
e.s. ég fæ kláða eftir að hafa verið með maskara (augnháralit)
Svar:
Komdu nú sæl.
Kláði í augnkrókum stafar oftast af einskonar ofnæmi, en getur einnig komið vegna hvarmabólgu – sem hefur verið lýst nokkuð ítarlega í fyrri pistlum hér á doktor.is. Ýmis lyf eru til við ofnæmi í augum en við hvarmabólgu gagnast heitir bakstrar best. Nú er það svo að lasermeðferð á augum er frábær meðferð og hentar mjög mörgum en ekki þó öllum. Það er þó fremur sjaldgæft að fólki sé hafnað á grundvelli augnofnæmis eða hvarmabólgu. Hvort tveggja er oftast hægt að meðhöndla nægilega vel til þess að geta framkvæmt aðgerðina. Hin tegund aðgerðarinnar kynni að henta betur en ég myndi þó vilja fara betur yfir þín mál til að svara því til hlítar hvor aðgerðin hentaði augum þínum betur – t.d. ef langt er síðan þú fórst í forskoðun. Mikill áhugi er fyrir linsuaðgerðinni og er fjöldi manns þegar kominn á biðlista. Þér væri t.d. velkomið að hafa samband við okkur í augnlaserstöðinni Sjónlagi í Grafarvoginum vegna þessa.
Annað sem við þyrftum að kanna væri það sem kallað er „mucus fishing syndrome“, þar sem fólk veiðir slímþræði út úr augnkrókunum af og til yfir daginn. Það getur komið af stað vítahring þar sem meira slím myndast við ertingu frá fingrinum, það er síðan veitt úr með tilheyrandi ertingu, meira slím myndast o.s.frv. o.s.frv.
Bestu kveðjur og gangi þér vel.
Jóhannes Kári.