Spurning:
Fyrir 3 mánuðum eignaðist ég barn. Í fæðingunni varð ég mjög veik og var barnið tekið með keisaraskurði. Í ljós kom að í leggöngunum ræktuðust streptokokkar B. Ljósmóðir sagði við mig að fylgjast yrði vel með næstu meðgöngu vegna þessa. Því langar mig að vita af hverju streptokokkar B eru í leggöngum. Geta þeir verið hættulegir fóstri og hvað með fæðinguna sjálfa?
Svar:
Rannsóknir sýna að allt frá 5 til 25% kvenna bera B tegund Streptokokka (GBS) í leggöngum. Yfirleitt gefur slík sýking engin einkenni en þegar kona sem ber í sér sýkilinn verður barnshafandi geta komið upp vandamál. Helstu vandamálin eru legvatnsleki og sýking í legholi ásamt fyrirburafæðingum. Streptokokkar geta einnig valdið alvarlegum sýkingum í barni sem fæðist um sýktan fæðingarveg, en það eru þó einungis um 1-2% barna þeirra mæðra sem bera GBS. Streptokokkar geta einnig valdið þvagfærasýkingum og finnast stundum í hálsi og endaþarmi. Þar sem sýking í leggöngum getur komið án einkenna og kona getur smitast aftur eftir meðferð er lítil gagnsemi í kembileit að sýklinum í leggöngum kvenna. Ræktanir eru þó alltaf teknar ef kona er með fyrirvarasótt eða legvatnsleka fyrir tímann og viðeigandi sýklalyfjameðferð gefin. Í næstu meðgöngu er óvíst að Streptokokkar ræktist frá þér en sjálfsagt að skoða það í upphafi og við lok meðgöngunnar.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir