Surmotil, Imovane og meðganga

Fyrirspurn:

Mig vantar upplýsinar um lyf á meðgöngu, er að stefna á að verða ólétt þegar líður á haustið og ég er að taka surmontil 2-3 á dag til að ná dýpt á svefninn, svo þegar ég er búin að eiga erfiðr nætur tek ég imovane 7,5 mg til að ná upp svefni, er hægt að halda þessu áfram þegar ég verð ólétt ? Og svo var ég að lesa mig til um surmontil og þetta er fyrir fólk með þunglyndi, skil ekki af hverju ég var sett á þetta.

Kær kveðja,

xxx

Aldur:

32

Kyn:

Kvenmaður

Svar:

Sæl.

Surmontil inniheldur virka efnið trimipramin og er af flokki svokallaðra þríhringlaga geðdeyfðarlyfja. Oftar en ekki er gripið til þessara lyfja til að aðstoða við svefn þar sem þau hafa nokkuð slævandi áhrif sem aukaverkun. Sýnt hefur verið fram á að trimipramin fer yfir fylgju og berst út í brjóstamjólk en rannsóknir hafa ekki sýnt fram á nein varanleg óæskileg áhrif á fóstur eða nýbura. Þó hefur verið skýrt frá hröðum hjartslætti hjá fóstri þegar lyfið var notað á síðasta hluta meðgöngu. Ég myndi ekki mæla með notkun þessa lyfs á meðgöngu nema brýna nauðsyn beri til og ávinningur af meðferðinni sé meiri en hugsanleg áhætta. Í það minnsta skaltu nefna það við lækninn sem ákveður þá hvort æskilegt sé að þú haldir áfram á lyfinu meðan á meðgöngu stendur.

Imovane inniheldur virka efnið zopiclone og er mun nýrra lyf en ofangreint lyf. Ef Imovane virkar eitt og sér hjá þér ætti að skoða hvort hægt sé að losa þig við Surmontil þar sem Imovane hefur marga kosti umfram það, t.d. færri og vægari aukaverkanir ásamt því að hreinsast fyrr úr líkamanum. Ekki eru til nægileg gögn til að meta hættuna á notkun lyfsins á meðgöngu og við brjóstagjöf en þó hafa dýratilraunir ekki sýnt fram á neinn skaða af völdum þess. Ef lyfið er notað á síðasta þriðjungi meðgöngu má búast við einhverjum slævandi áhrifum á fóstur. Ég set sama fyrirvara á notkun lyfsins og þess að ofan; ekki nota það nema brýna nauðsyn beri til.

Það er nokkuð ljóst að allir þurfa svefn og ekki síst ófrískar konur og eigirðu erfitt með hann þarf eðlilega að bregðast við og það mun læknirinn gera í samráði við þig.

Þórir Benediktsson
Lyfjafræðingur