Svartur punktur á auganu?

Spurning:

Ég er með spurningu. Ég er tvítug stúlka og í um það bil tvö ár hef ég séð lítinn svartan punkt. Það er eins og glæran í hægra auganu á mér sé með rispu eða annað slíkt og er þetta mjög óþægilegt þar sem punkturinn dansar á öllu sem ég horfi á.

Stundum sé ég hann reyndar ekki ( held að ég hreinlega nái að gleyma honum og útiloka hann) en ef ég hugsa um hann truflar hann mig oft við lestur og fleira.

Á ég að leita læknis vegna hans og er eitthvað hægt að gera?

Svar:
Þetta fyrirbæri er vel þekkt og kallast flotagnir, á ensku gengur þetta undir nafninu „floaters“. Þessar agnir eru staðsettar inni í auganu, í glerhlaupinu svokallaða, sem er glært hlaup er fyllir augað að innan. Þetta er meinlaust fyrirbrigði og eru flestir með einhverjar agnir á floti inni í auganu. Þessar agnir sjást best þegar horft er á auðan flöt líkt og heiðan himinn eða auða blaðsíðu. Agnirnar fylgja með augnhreyfingum og geta tekið á taugarnar ef mikið er af þeim. Nokkur hætta getur verið á ferðum ef allt í einu kemur fram mikið af slíkum ögnum, gjarnan með glömpum í sjónsviðinu. Það getur verið merki um sjónhimnulos, sem er alvarlegur augnsjúkdómur. Þín einkenni benda alls ekki til þess. Stundum hverfa slíkar agnir og heilinn lærir að útiloka þær. Ég ráðlegg þér að hugsa sem minnst um þetta en hafa samband við augnlækni ef það fer að bera á fleiri slíkum ögnum eða hinum áðurnefndu glömpum. Hægt er að fjarlægja þetta með augnaðgerð, en hún er hins vegar of áhættusöm og stór til að það sé gert nema í algjörum undantekningartilfellum.

Gangi þér vel! Bestu kveðjur,

Jóhannes Kári.