Svefn og næring sonar míns

Spurning:

Komdu sæl Dagný.

Sonur minn er 5 mánaða gleðigjafi en við eigum í ýmsum vandamálum. Ég hef vanið hann á að ég ruggi honum í svefn í vöggu á hjólum en nú er hann orðinn of stór fyrir vögguna og ég þarf að setja hann í rimlarúm, sem ég get náttúrulega ekki ruggað. Hvernig á ég að venja hann af rugginu?

Hann hefur verið á brjósti hingað til og ég hef gefið honum graut frá 3 mánaða aldri í samráði við hjúkrunarfræðing. Mjólkin hjá mér minnkaði nefnilega þegar hann var u.þ.b. 2 mánaða og ég reyndi í u.þ.b. mánuð að ná upp mjólkinni aftur en ekkert gekk og þar sem hann vill ekki pela, ég er búin að reyna mjög, mjög oft, þá gaf ég honum graut. Hann vill drekka mjög oft yfir daginn, bæði nótt og dag. Ég skráði hjá mér að gamni hvað hann drakk oft yfir daginn og það kom í ljós að hann drekkur að meðaltali 12 sinnum, þar af 3-4 sinnum yfir nóttina. Til að bæta upp mjólkurskortinn gef ég honum graut á morgnana, í hádeginu, milli kl. 17-18 og áður en hann fer að sofa á kvöldin milli 22-23. Ég hef reynt að hella upp í hann, gefa honum af stútkönnu, gefa honum með skeið og ekkert virkar, hann virðist alltaf vera svangur. Það lýsir sér þannig að hann kvartar, sýgur á sér hendurnar, grætur o.s.frv. Síðan er meiriháttar mál að fá hann til að drekka, það er ekki bara hægt að skella honum á brjóstið og láta hann drekka, ég verð að hafa brjóstið tilbúið, leggja hann í vögguna og taka hann síðan upp og setja hann beint á brjóstið, svona hefur þetta gengið í u.þ.b. mánuð og ég er orðin mjög þreytt á þessari eilífu baráttu við hann. Þegar hann er síðan búinn að drekka, er hann yfirleitt rólegur þangað til að hann vill drekka næst, ca. 1,5-2 tímum síðar. Þar sem hann virðist alltaf svangur þá veit ég ekki hvort það hentar mér að leggja hann í rúmið og koma síðan reglulega inn til hans þanngað til að hann hættir að gráta og sofnar, því ég get ekki verið viss um að hann gráti af því að hann er svangur eða ekki.

Hvað er að honum? Af hverju lætur hann alltaf eins hann sé svangur? Er eðlilegt að hann vilji drekka svona oft yfir daginn? Hann er stór miðað við aldur, ca. 9 kg. og 70 cm. Og er eðlilegt að þó að ég gefi honum graut að hann vilji drekka svona oft? Hann er mjög virkur, er löngu byrjaður að velta sér bæði af maga yfir á bak og af baki yfir af maga, hann vakir mikið, hann sefur ekki nema ca. 12 tíma á dag, allra mesta lagi 14 tíma. Þarf hann virkilega svona mikla orku? Hann virðist þyngjast eðlilega, eða 200-300 gr. á mánuði. Þó að mér finnist það ekki mikið þá finnst ljósmæðrunum hér það allt í lagi.

Finnst þér það í lagi?
Jæja nóg af spurningum, með von um einhver svör, ein langþreytt móðir.

Kveðja,

Kveðja,
Ein vongóð

Svar:

Sæl.

Sæl. Það getur verið erfitt að venja blessaða ungana af þeim svefnvenjum sem við fullorðna fólkið kennum þeim. Skiptu bara um rúm og sjáðu hvað hann gerir. Passaðu þig bara á að koma ekki með einhvern nýjan sið sem ómögulegt er að komast undan eins og að syngja hann í svefn eða þvíumlíkt. Einhvern tímann kemur að því að þú ert ekki heima um kvöld og þá verður erfitt fyrir þann sem passar að svæfa ef hann er ekki með þína rödd og kann allt sem þú kannt. En öllu gamni slepptu þá er gleðigjafinn þinn hugsanlega ennþá of ungur til að geta sofnað alveg hjálparlaust. Ef hann fær brjóstið að vild yfir daginn er hugsanlegt að betur gangi að fá hann til að sofna í rúminu á kvöldin. Margir foreldrar setja pabbann í svæfingarhlutverkið til að aftengja brjóst og svefn og þá er um að gera að pabbinn komi sér upp sínum eigin siðum við svæfinguna, eins og t.d. að lesa fyrir sjálfan sig, brjóta saman þvottinn eða teikna. Bara að ekki sé beinlínis verið að svæfa barnið heldur sé hinn fullorðni á staðnum meðan barnið sofnar. Þessi tími er dýrmætur og oft eini tíminn sem þeim fullorðnu gefst til að lesa. Þegar svo barnið stækkar og fer að skilja það sem sagt er, er hægt að segja því að liggja kyrru meðan hinn fullorðni fer fram að sækja bók, þvott, o.s.frv. og þannig lærir barnið smám saman að sofna án þess að nokkur fullorðinn sé hjá því.

Varðandi næringuna þá virðistu komin í smá vítahring þar. Það er eðlilegt að börn drekki 8-12 sinnum á sólarhring. Málið er að fá þau til að drekka rétt. Þau verða að fá fitumiklu mjólkina sem kemur síðast í gjöfinni því annars fá þau ekki seddutilfinningu og eru sísvöng. Það getur hins vegar verið erfitt ef mjólkin hefur verið mikil og runnið hratt ofan í þau til að byrja með. Þá kunna börnin ekkert á að vera með hálftómt brjóstið að gæða sér á rjómanum. Stundum virkar að gefa þeim annað brjóstið í einu og láta þau taka það aftur og aftur í hálftíma áður en maður býður þeim hitt brjóstið. Þannig neyðast þau til að sjúga áfram þótt lítið komi. Svona svengd getur líka endurspeglað fæðuóþol eða ofnæmi. Drengnum er e.t.v. ekkert hollt að fá svona mikinn graut. Grauturinn veldur líka þorsta og ef lítil mjólk er í þér fær hann kannski ekki nógan vök
va. Hversu oft pissar hann og hvernig er pissið á litinn? Hann ætti að rennbleyta 6-8 bleiur og þvagið á að vera nær litlaust. Ef það er appelsínugult eða hann bleytir fáar bleiur þarf hann meiri vökva. Hann er greinilega að fá nóg að borða því hann þyngist ríflega. Meðalþyngdaraukning fyrir barn á hans aldri er 150-200 grömm. Ef hann er svona virkur og vakir mikið þá þarf hann náttúrulega meira að borða og hann þarf líka meira að vera með foreldrum sínum því dugleg börn þurfa að hafa eitthvað fyrir stafni og þá er fátt betra en að spjalla við foreldrana sína. Reyndu fyrst og fremst að koma reglu á matartímana þannig að hann fái ekki of mikinn graut – 1/2 bolli eftir brjóstagjöf 2x á dag ætti að vera nóg og það er ekkert betra fyrir hann að fá kvöldmatinn svona seint. Hvernig væri að gefa honum kvöldmatinn bara um kl. 20.00 og vera svo með hann á brjósti 1-2 tíma eftir það. Þá fær hann bæði mat og mjólkurfitu. Fitan gefur seddutilfinningu og eftir svona törn gæti hann sofið vel. Ræddu þetta líka við hjúkrunarfræðinginn í ungbarnaverndinni og sjáðu hvort hún getur ekki leiðbeint ykkur með þetta. Vertu svo bara þolinmóð – hann vex upp úr þessu. Gangi ykkur vel,
Dagný Zoega, ljósmóðir