Svefnleysi

Ég er að verða 79 ára gömul og hef alltaf átt við svefnleysi að stríða. Nú ber svo við að ég get ekki fengið svefntöflurnar sem hafa gert mér best. Ég hef ekki þurft að taka nein lyf að staðaldri annað enn Esomeprazol 20mg., sem ég hef fengið vegna brjóstsviða sem hefur verið að hrjá mig síðasta árið. Um leið og ég leggst niður byrjar brjóstsviðinn og bætir það ekki líðanina á nóttunni. Þegar ég hringdi síðast og bað um „Halcion“ o,25mg,, svefntöflurnar sem ég hef tekið, var mér tjáð að ekki mætti lengur ávísa á þær, en ég fékk í staðinn töflur sem heita „Risolid“ 10mg. sem gera ekkert fyrir mig. Þær halda mér frekar vakandi, en hitt og auka bara brjóstsviðann. Nú er ég að verða hálf rugluð á að geta ekki sofið. Auk þess að sjá tvöfalt vegna þreytu. Hvað er til ráða?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Það er að sjálfsögðu ómögulegt að þú getir ekki sofið. Halcion er lyf sem aðeins er ætlað að nota í skamman tíma í einu, mesta lagi 2 vikur. Mögulega hefur læknirinn þinn þess vegna viljað skipta um lyf hjá þér. Það eru til fjölmargar gerðir af svefnlyfjum og þú verður að heyra í honum og láta vita að það sem hann gaf þér í staðinn sé ekki að virka fyrir þig.

Ég ráðlegg þér þess vegna að hitta lækninn þinn og fara yfir þetta með honum, fá ástæðuna fyrir því að þú eigir ekki að taka Halcion og hvaða annað lyf sé í boði í staðinn.

Gangi þér vel

Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur