Fyrirspurn:
Daginn.
Ég á son sem er að verða 4 ára núna í lok ágúst. Málið er að hann fær martraðir þannig að hann öskrar og/eða vælir þangað til að við náum honum niður (sem getur tekið dágóða stund) nánast á hverri nóttu og oft, oft á nóttu. Draumarnir virðast snúa um einfalda hluti eins og önnur börn að taka af honum dót, einhver að skamma hann og þess háttar. Núna held ég að þetta sé farið að hafa áhrif á hans daglega líf því hann er ekki að hvílast nóg og er oft glær í augunum um miðjan dag af þreytu… Er eitthvað hægt að gera í svona málum? Þetta hefur varað í nokkra mánuði.
Sæl
Þetta virðist vera merki um að drengurinn sé í frekar miklum hasar yfir daginn. Það má vera að það sé mikið álag á honum t.d. í leikskóla. Mögulega á heimilinu sé stutt á milli systkina og hann finni fyrir álagi. Erfiðir draumar geta einnig verið merki um aðlögunarröskun (Adjustment Disorder) Þá er verið vísa í upplifanir sem fólk fær við áfall (Post Trauma Stress Disorder) án þess að ströngustu skilyrði um áfall sé að ræða (það er ógn sem gæti verið lífshættuleg) heldur er verið að vísa til þess að miklar breytingar t.d. yngri systkini, nýjar fjölskylduaðstæður, skilnaður, flutningur á milli staða og svo framvegis kalli fram áfallaviðbrögð í líkamanum. Hluti af áfallaviðbrögðum er einmitt erfitt draumfar og martraðir. Að öðru leiti að þá getur umrædd aðlögunarröskun komið fram með svipuðum hætti og ofvirkni.
Ef það eru mjög erfið samskipti á heimilinu getur það kallað fram svona sterk viðbrögð hjá honum og þá er eðlilegt að finna sér aðstoð við því og sjá hvort það lagi ekki svefninn hjá drengnum, því börn eru einstaklega næm á allan óróa innan heimilis.
Það þarf ekki alltaf að vera svo stórtækt, heldur þarf einnig að hafa í huga að það sé ekki verið að skamma hann úr óhófi, en það getur verið byrjað hjá honum þroskaskeið þar sem líkaminn og heilinn eru uppfull af testósterón og þá getur hann verið byrjaður að vera mjög fyrirferðamikill. Það getur síðan verið honum mjög erfitt ef það er verið að siða hann til með ásökunum um að hann sé ekki nógu góður og svo framvegis. Það getur verið mjög særandi fyrir lítið hjarta en sterkar hendur og fætur. Þá þarf að umbera það í einhverja mánuði, og svo lagast hegðunin aftur.
Það getur því verið mjög mikilvægt að sinna barninu vel fyrir svefn, þannig að það komist á sá háttur að hann sofni yfirleitt sáttur. Það sé lesið fyrir hann, jafnvel leikin fyrir hann róandi klassísk tónlist á kvöldin, jafnvel eftir að hann er sofnaður. Að hann finni vel fyrir því að ykkur þyki vænt um hann, bara eins og hann er og svo framvegis.
Næringarþörf sé vel sinnt og hann sé ekki að borða rétt fyrir svefninn. Lýsisgjöf eða Omega3 hefur góð áhrif á melatón í líkamanum, en melatón hefur mjög mikil áhrif á það að halda dagsveiflum og þar með töldum svefni í betra jafnvægi, best að gefa það á morgnana. Hann má helst ekki vera að drekka kók og aðra froðu eða borða sykur seint á kvöldin, það getur valdið honum erfiðleikum í svefni.
Að hann fari sem mesta að sofa á sama tíma. Að hann sé ekki að sofna t.d. klukkan 6 seinnipartinn og fari svo seint að sofa heldur að hann fari að sofa sem fyrst á kvöldin. Að það sé ekki verið að vaka frameftir suma daga og svo framvegis, heldur halda reglunni sem allra mest.
Ég sé að fyrirspurnin er send núna strax eftir verslunarmannahelgina, þannig að ef hann hefur verið í útilegu, að þá er möguleiki á t.d. hey- eða frjóofnæmi ef þetta hefur verið slæmt núna yfir sumartímann, að þá getur verið eðlilegt að skoða það. En af lýsingunni virðist þetta ekki endilega verið bundið við sumarið, þannig að þá fellur sú kenning, en það getur verið vert að hafa ofnæmi í huga ef aðrir hlutir eru ekki að ganga upp.
Þannig að það getur verið að ýmsu að hyggja. Ef það er ekki að komast á þetta lausn fljótlega er eðlilegt að leita til heilsugæslustöðva, en þar er yfirleitt góð þjónusta barnasálfræðinga til þess að fara ýtarlegar og betur ofan í hans líðan, eða þá að finna sérhæfða barnasálfræðinga eða barnalækna sem gætu farið yfir hans mál með ykkur.
Kær kveðja
Björn Vernharðsson Sálfræðingur