Svefntruflanir, hvað er til ráða?

Spurning:
Ég hef átt við svefntruflanir að stríða um nokkurt skeið. Ég vakna snemma og get ekki sofnað aftur. Síðan sækir svefn á mig á daginn. Ég á oft bágt með að sofna á kvöldin vegna áhyggna. Jafnframt tek ég eftir verulegum tilfinningadoða – mér er meira og minna sama um allt og fátt vekur mér ánægju nema þá helst að vera einn með sjálfum mér. Oft hef ég velt því fyrir mér hvort að einhver tilgangur sé með veru minni hér. Hvað er til ráða?

Svar:
Svefntruflanir eru afar óþægilegar og geta orsakað vanlíðan á margan hátt. Oft eru gefin svefnlyf tímabundið og hafa þau virkað vel fyrir marga. Þó eru sum svefnlyf ávanabindandi og verður því að fylgja fyrirmælum lækna með þau. Svefnlyf leysa þó ekki annars konar vandamál. Í spurningu þinni virðast erfiðleikar þínir með svefn stafa af andlegri vanlíðan, hver svo sem hún er. Mikilvægt er að skoða það betur og getur þú leita? þér aðstoðar t.d. sálfræðings eða annara sérfræðinga.

Til eru nokkur handhæg ráð til að hjálpa þér með svefninn. Farðu í heitt bað fyrir svefn. Ekki nota rúmið í neitt annað en að sofa. Ekki horfa á sjónvarp eða lesa uppí rúmi. Prófaðu að sofa með höfuð til fóta. Hafðu gluggann opinn til að fá ferskt loft. Gerðu einfalda hugarleikfimi eins og að telja kindur. Ef þú hefur áhugamál eins og t.d. fótbolta þá geturðu ímyndað þér að þú sért partur af leiknum. Reyndu að sjá það fyrir þér. Notaðu slökunaraðferðir (hægt að kaupa margskonar bækur út í bókabú). Oft getur maður ekki sofnað vegna þess að maður hugsar of mikið um það sem maður á eftir að gera. Skrifaðu hluti niður áður en þú ferð að sofa. Hafðu reglu á svefntímanum, bæði með tímasetningu og hvernig þú ferð að sofa. Ekki drekka kaffi, kryddaðan mat eða áfengi fyrir svefninn. Ekki leggja þig á daginn. Taktu kvöldgöngutúr. Ekki liggja of lengi í rúminu ef þú getur ekki sofnað. Gefðu þér c.a. hálftíma og stattu svo upp, farðu í bað eða fáðu þér flóaða mjólk. Reyndu síðan aftur. Mundu að þó að þú getir lagað svefninn þá er mikilvægt að ráðast á orsök vandans.

Gangi þér vel.
Brynjar Emilsson Sálfræðingur s:6619068