Sveppasýking, sviði og samfarir?

Spurning:

Sæll.

Þegar maður hefur greinst með sveppasýkingu í leggöngum og búin að fá
lyf við því og ljúka meðferð, er þá eðlilegt að finna fyrir sviða við
samfarir.

Með kveðju.

Svar:

Sæl.

Þrátt fyrir að meðferð sé lokið er ekki alveg víst að búið sé að uppræta sýkinguna. Þetta geta verið þrálátar sýkingar og þó svo að þú hafir ekki sömu einkenni og í upphafi þá verðurðu að klára fulla meðferð. Fólk hefur tilhneigingu til að hætta meðferð við sveppum of snemma því einkennin hverfa. Sveppnum hefur hins vegar ekki endilega verið útrýmt heldur er aðeins illa vankaður.

Sveppir eru hluti af eðlilegri leggangaflóru, þeir valda ekki sýkingu nema ójafnvægi verði í flórunni.
Kannski er þetta ójafnvægi enn til staðar, leggöngin eru því aum, þurr og sár.

Til þess að koma sem bestu jafnvægi á flóruna er gott að fylgja þessum leiðbeiningum.
Þvoðið ykkur með sápu að hámarki einu sinni á dag, reynið helst að nota bara volgt vatn og sleppa sápunni.

Notið bómullarnærbuxur eða föt sem ekki eru mjög þröng. Hreinlæti og góð heilsa minnka líkur á sveppasýkingu þó sumir einstaklingar séu móttækilegri en aðrir og fái sveppasýkingar mun oftar. Sveppasýkingin í leggöngunum eykst ef sveppurinn fær viðeigandi næringu. Í leggöngunum finnast ávallt „auðmeltar“ sykurtegundir og þeim fjölgar ef blóðsykurgildin hækka. Forðist því að borða sætindi eins og hægt er.

F.h. Félags um forvarnir læknanema, forvarnir.com
Jón þorkell Einarsson, læknanemi