Svimi

Fyrirspurn

Ég er að að leita að upplýsingum varðandi smásteina eða sand við innra eyra, sem veldur svima, og hvað er til ráða ?

Svar

Mér sýnist þú vera að meina góðkynja stöðusvima sem kemur einmitt v. smásteina eða kristalla sem losna inn í jafnvægislíffærinu sem er í innra eyra.  Þetta lýsir sér sem hringekjusvimi þar sem allt hringsnýst fyrir augunum á manni, nærri því strax eftir ákveðna hreyfingu, t.d. þegar maður veltir sér í rúmi eða snýr sér snöggt til hliðar. Sviminn stendur stutt og gengur yfir á 15-30 sekúndum. Þetta er til tölulega auðvelt að greina við skoðun hjá  háls-, nef-og eyrnalækni. Meðferðin er síðan framkvæmd í beinu framhaldi af skoðun og í um 80% tilvika nær maður að laga svimann. Þetta er gert með því að velta sjúklingi eftir fyrirfram ákveðnu ferli þannig að smá steinarnir eða kristallarnir færist á réttan stað í jafnvægislíffærinu.

Á fræðimáli er þetta kallað „Benign paroxysmal positional vertigo“ eða BPPV. Hægt er að „googla“ þetta og lesa sig meira til um vandann á netinu.

Með von um að þetta hafi e-ð hjálpað.

Erlingur Hugi Kristvinsson

Háls-, nef- og eyrnalæknir