Fyrirspurn:
Ég er búin að vera núna í tæpa viku með smá svima eða einhvern vegin skrítin.. Á erfitt með að lýsa því en þetta er eins og vægur svimi (hef samt aldrei fengið svima þannig að ég er ekki 100% viss). Finnst ég hálf dofin og á erfitt með að læra svona fyrir prófin hjá mér. Þetta byrjar strax á morgnanna og er allan daginn. Finn mest fyrir þessu þegar ég er að reyna lesa, finnst ég ekki sjá skýrt. Er ekki með hausverk með þessu, fyrir utan 1 dag í síðustu viku.
Ég er líka búin að vera aum og skrítin í brjóstunum en það er að líða hjá. Var samt á blæðingum frá 21 – 26. apríl. Byrjaði 2 eða 3 dögum of seint samt..
Ég er að velta fyrir mér hvað þetta geti verið..
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
Þetta sem þú lýsir getur nú verið ýmislegt.
Fyrsta ágiskunin verður þó að vera streita og álag. Þú ert að læra fyrir próf og því fylgir aukið álag, jafnvel þó að þér finnist þú ekkert stressuð.
Gættu að því að þú fáir nægan svefn og borðir reglulega og hollan mat en umfram allt drekktu vel af vatni. Það gæti útskýrt öll þessi einkenni. Eins er afar mikilvægt að standa upp af og til og hreyfa sig, helst fara út í goóða veðrið smá stund.
Annað sem gæti verið að trufla þig er sjónin… sjónin getur breyst á öllum aldri og þegar þú ert að lesa mikið þá gætir þú fundið frekar fyrir því. Einfalt er að fara til sjóntækjafræðings og fá gunnmælingu og panta svo tíma hjá augnlækni ef ástæða er til.
Eymslin í brjóstunum tengjast líklegast tíðahringnum.
Vona að þetta komi að gagni og gangi þér vel.
Guðrún Gyða