Sviði á kynfærum á meðgöngu

Spurning:

Sæl Dagný.

Ég er með spurningu. Málið er að ég varð ófrísk í fyrra og missti fóstrið. Nú er ég aftur orðin ófrísk miðað við tvær óléttuprufur. Nú er það sama að gerast og gerðist þegar ég varð ólétt í fyrra en það er að mig svíður svo mikið í kynfærin. Þá fór ég til kvensjúkdómalæknis og hann sá einhverjar breytingar en ekki neitt hættulegt. Hann sagði að á meðan ég væri ófrísk yrði ekki neitt gert nema hann frysti mig með 60 gráða frosti og eftir það fór þessi sviði.

Núna er þetta vandamál komið aftur og þess vegna fattaði ég að ég væri orðin ófrísk aftur. Ég er svo hrædd um að missa fóstur aftur og er að spá hvort að þetta sé eðlilegt eða er þetta fyrirboði á einhverju?

Svar:

Sæl.

Það sem þú lýsir gæti verið kynfæraáblástur (Herpes) sem oft blossar upp við álag, hafi maður einu sinni smitast af honum. Fósturlátið varð þó tæpast vegna kynfæraáblástursins og hann er ekki öruggur fyrirboði fósturláts. Ef læknirinn þurfti að brenna eitthvað af þér (með frosti) síðast er líklegt að um hafi verið að ræða kynfæravörtur og þær valda heldur ekki fósturláti. Láttu endilega kvensjúkdómalækni líta á þig til að útiloka að um einhverskonar sýkingar geti verið að ræða og fáðu bara á hreint hvað er um að vera.

Gangi þér vel.
Dagný Zoega, ljósmóðir