Sviði í kynfærum við samfarir

Spurning:

Sæll.

Ég er tvítug stúlka sem á í erfiðleikum vegna sviða í kynfærum eftir samfarir. Sviðinn er yfirleitt á innri skapabörmum en stundum svíður einnig í leggöngunum sjálfum. Ég hef skoðað mig í spegli eftir samfarir og þá lítur einna helst út fyrir að það séu litlar rifur á húðinni, og stundum blæðir úr. Þessi sár eru svo lengi að gróa, 1-2 vikur. Þess má geta að ég er nýfarin að stunda kynlíf aftur eftir alllangt hlé, ég hef hvorki kynsjúkdóm né sýkingu í þvagrás eða þvagblöðru. Ég hef ekki átt í vandræðum með að blotna en hef ég engu að síður notað smyrsli til að reyna að komast hjá þessu, en það gerði ekkert gagn. Þetta er orðið afar hvimleitt og hefur orðið til þess að samfarir eru ómögulegar nema þá að við bíðum í 1-2 vikur á milli. Einnig hef ég orðið fyrir miklum sársauka við þvaglát og hægðir vegna þessa. Rekkjunautur minn hefur frekar breiðan lim, og hefur okkur dottið í hug að þar gæti vandinn legið, einnig langar mig að nefna það að hann rakar hárin sem vaxa neðst á limnum, og hvort að hárbroddar gætu e.t.v. hafa valdið þessum sárum við samfarir.

Kær kveðja.

Svar:

Sæl.

Þetta er vel þekkt vandamál og orsakir nokkrar. Eftir að húðin hefur orðið svona viðkvæm rifnar hún við minnsta hnjask, þ.m.t. samförir svo sem þú lýsir. Leiðin til bata er nokkuð löng og krefst þolinmæði af beggja hálfu. Þú verður að ræða við lækni um meðferð og orsakir og svo þarf að setja upp meðferðaráætlun fyrir þig. Gangi þér vel og góðan bata.

Bestu kveðjur,
Arnar Hauksson dr. med.