Spurning:
Halló!
Ég skrifaði í umræðudálkinn en fékk ekkert svar og langar þess vegna að spyrja ykkur sérfræðingana álits. Ég hef í mörg ár verið með of mikla svitamyndun undir höndum sem er að sjálfsögðu rosanlega leiðinlegt og hefur áhrif bæði á andlega líðan og daglegar athafnir manns. En um daginn keypti ég Maxim svitastoppara sem er sérstaklega hannaður fyrir þetta. Ég hef hins vegar ekki prufað hann þar sem ég er með barn á brjósti. Það stendur í fylgiseðlinum að maður eigi að fá ráð hjá lækni áður ef maður er með barn á brjósti. Hann inniheldur nefnilega mikið magn af Aluminum cloride. Ég vona að þið hafið svar. Takk fyrir.
Svar:
Allir svitaeyðar byggja á álklóríði sem stoppa svitamyndun, einungis í mismiklum mæli. Flest efni sem borin eru á húðina frásogast aðeins inn í blóðrásina en þó mismikið. Þar sem mjólkandi brjóst eru miklar síunarstöðvar er mögulegt að sterk efni sem berast á húð verði í of miklum styrk í mjólkinni. Þess vegna teldi ég ráðlegt að bíða um sinn með að nota þennan svitaeyði en bera bara þennan venjulega á oftar yfir daginn þar til barnið er hætt á brjósti. Farðu samt ekkert að venja krílið af í þeim tilgangi að nota meðalið – brjóstagjöfin er barninu of dýrmæt til þess.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir