svittna við vinnu

ég má ekkert gera þá svittna ég

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

 

Að svitna er eðlilegt og nauðsynlegt og tekur mikilvægan þátt í að stjórna líkamshitanum og halda honum stöðugum. Fólk svitnar mismikið en um einn af hverjum 100 einstaklingum svitnar óeðlilega mikið, þannig að það veldur viðkomandi óþægindum. Þessi mikla svitamyndun getur verið takmörkuð við viss svæði, eins og lófa, iljar, handarkrika, andlit eða búk, eða dreift um allan líkamann. Óeðlilega mikil svitamyndun (hyperhydrosis) getur átt sér þekktar orsakir eða verið af óþekktum uppruna. Þekktar orsakir fyrir mikilli svitamyndun eru oft læknanlegar að einhverju marki og getur þar t.d. verið um að ræða ofstarfsemi skjaldkirtils, hormónameðferð við krabbameini í blöðruhálskirtli, offitu, sykursýki, tíðahvörf og geðsjúkdóma. Sumir svitna mikið vegna kvíða og fælni, t.d. ef þeir þurfa að koma fram á sviði, í ræðustól eða í sjónvarpi. Þegar ekki finnst nein sérstök orsök er oft um að ræða ættgengan kvilla sem gjarnan byrjar á barns- eða unglingsárum og fylgir viðkomandi einstaklingi alla ævi. Sumir þessara einstaklinga svitna óeðlilega mikið allan sólarhringinn en aðrir við minnstu áreynslu, hækkun á lofthita, sótthita, kvíða eða mikið kryddaðan mat. Oft fylgir þessu roði í húð, einkum í andliti og á hálsi. Leita þarf til læknis til að staðfesta að um ofsvitnun sé að ræða. Ýmis próf eru notuð til að greina ástandið, svo og spurningalistar. Nokkur meðferðarúrræði eru til. Eitt þeirra felst í sterkum andsvitaefnum (e. anti-perspirants) sem eru lyfseðilskyld. Þau geta þó valdið húðertingu. Venjulegir svitalyktareyðar (e. deoderants) innihalda ekki slík efni, enda er þeirra hlutverk að eyða svitalykt, ekki stífla svitakirtla sem andsvitaefni gera. Læt fylgja með linka sem hægt er að skoða til frekari upplýsinga.

Gangi þér/ykkur vel.

 

https://www.visindavefur.is/svar.php?id=55167

https://doktor.is/grein/sviti-svitakirtlar

https://www.medicalnewstoday.com/articles/182130.php