Sýking í augum?

Fyrirspurn:

Góðan dag.

Ég tók eftir því í morgun þegar  13 mánaða dóttir mín vaknaði að óvenju mikið var um stýrur í augunum á henni og miklu meira en ég hef áður séð hjá henni. Hún er hálfslöpp og er með 37,9 stiga hita og svona aðeins rauðleit í kringum augun.

Það er sumsagt bara þetta með augun og stýrurnar sem ég hef aldrei áður séð hjá henni og væri gott að fá að vita hvers vegna þetta birtist hjá henni allt í einu núna.

 

Takk fyrir fyrirspurnina.

Þar sem hún er með hita eru allar líkur á að um sýkingu sé að ræða, þ.e. ýmsum kvefvírusum getur fylgt "augnkvef".

Mikilvægt er að komast að því hvort um er að ræða vírus eða bakteríu og stundum þarf að gefa lyf.

Best er að þvo stírurnar burt með volgu vatni og bómull eða þvottaklút og gæta þarf þess að nota sinn hvorn bómullarhnoðrann eða  ekki sama svæði á klútnum milli augna til að reyna að varna að sýking berist milli augnanna.

Ef þið eruð ekki búin að fara með hana til læknis nú þegar og einkennin eru ennþá til staðar ættuð þið að láta kíkja á þetta og ganga úr skugga um hvort hún þurfi lyf. Þá er best að vera ekki nýbúinn að þvo augun til að hægt sé að taka strok úr greftrinum til ræktunar. Ég set hér með slóð á svipaða fyrirspurn þar sem svarið gæti gagnast ykkur.

 

Með bestu kveðju og gangi ykkur vel

Guðrún Gyða Hauksdóttir, Hjúkrunarfræðingur