Sykursýki og Herbalife?

Spurning:

Fyrirspurn nr: 4937

70 ára – Karl

Komið þið sæl.

35 ára gamall iðnaðarmaður kom til mín í síðustu viku, þar sem barst í tal, að ég væri með sykursýki 2, sem ég hef náð í eðlilegt horf með breyttu mataræði og hjólað á þrekhjóli með frábærum árangri, sem olli því, að ég var útskrifaður af göngudeild sykursjúkra eftir um það bil ár og hefur heimilislæknir minn tekið við og tékkað mig af síðan.  Hef lézt um 8 kg frá því ég tók sjálfan mig í gegn.

Já, þessi maður sagði mér, að eiginkona sín hefði lézt um 25 kg. eftir að hún byrjaði að taka inn HERBALIFE, en þegar ég spurði hann, hvort hún hefði um leið tekið sig á með mataræði og líkamsrækt, sagði hann, að hún hefði ekki gert neitt slíkt, bara tekið inn pillurnar!

Ég hef lesið, að engar töfratöflur hefðu enn fundizt við megrun, en spurningin er sú sérfræðingar, hvort nokkuð sé til í þessari HERBALIFE – goðsögu, en eins og er held ég að þessi frú mannsins sé bara einhver söluaðili.  Á ég karlinn bara ekki að halda áfram að hjóla og borða þann mat, sem sykursjúkir mega borða.

Með beztu kveðju,

Svar:

Sæll og blessaður.

Já, þær geta verið skemmtilega vitlausar þessar herbalife-goðsögur! Það er alveg hárrétt hjá þér að engar töfratöflur til megrunar hafa enn verið framleiddar og ég tel harla ólíklegt að það verði nokkurn tímann! Og að sjálfsögðu hefur frú iðnaðarmannsins minnkað hitaeininganeysluna og lést þess vegna.

Ég vil hins vegar óska þér til hamingju með þann stórkostlega árangur sem þú hefur náð með breyttu mataræði og líkamsrækt og hvet þig til að halda áfram á sömu braut.

Kveðja, Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur