Tá og dofi.

Ég hef alltaf svo mikla verki i hægri stórutá og er með dofa undir öllum tánum.Sérstaklega vest á nóttinni ,vakna við verki.hvað getur þetta verið.(er aldrei i þröngum skóm ) takk fyrir.

 

Góðan dag og takk fyrir fyrirspurnina.

Það er erfitt að greina vandamál út frá svona takmörkuðum upplýsingum en nauðsynlegt er að fá ítarlega heilsufarssögu svo hægt sé að gefa eitthvert eitt ákveðið svar. T.d. skiptir miklu máli að vita aldur þinn, hvort þú sért með sykursýki, hvort þú reykir eða sért með einhverja undirliggjandi sjúkdóma.

Verkur og dofi í fótum getur t.d. verið vegna taugavandamála eða æðavandamála. Það að verkurinn og dofinn aukist á næturnar getur verið vísbending um slagæðavandamál þar sem blóðið á erfiðara með að berast niður í fætur þegar þú liggur út af samanborið við á daginn þegar þú stendur eða situr og blóðið leitar sjálfkrafa niður í fætur. Hægt er að láta mæla slagæðaflæði í fótum hjá lækni og því ráðlegg ég þér að leita til þíns heimilislæknis til að útiloka að um skert blóðflæði sé að ræða.

Gangi þér vel,

Oddný Þorsteinsdóttir, hjúkrunarfræðingur