Tae-Bó á meðgöngu?

Spurning:

Sæl Ágústa

Ég er 19 ára gömul, 165 cm á hæð, 67 kg, frekar stórbeinótt og
barnshafandi, komin 5 vikur á leið. Áður en ég komst að því að ég væri ólétt hafði ég ætlað mér að grenna mig niður í „kjörþyngd". Ég er nú að velta því fyrir mér hvort mér er óhætt að léttast, og þá hvort ég megi stunda Tae-Bo. Hvað myndir þú telja hæfilegt að léttast mikið?

Kærar þakkir

Svar:

Meðgöngutíminn er ekki rétti tíminn til að hefja stífa líkamsþjálfun og takmarka mikið hitaeininganeyslu. Ef þú hefur verið að stunda einhverja þjálfun s.l. mánuði skaltu halda því áfram en ekki auka við álag fyrr en u.þ.b. 6-8 vikum eftir að þú ert búin að eiga barnið (ef allt er í lagi).

Ef þú ert vön að stunda tae-bó er allt í lagi að halda því eitthvað áfram eins og þú treystir þér til en þetta er ekki tíminn til að byrja á slíkum æfingum. Ég myndi ráðleggja þér að einbeita þér að því að lifa heilbrigðu lífi á meðgöngunni, fara í gönguferðir og borða holla og næringarríka fæðu og forðast sætindi og fituríka fæðu. Þannig leggur þú grunninn að góðri heilsu. Eftir barnsburðinn er góður tími til að einbeita þér að því að komast í þína kjörþyngd.

Gangi þér vel,

kveðja,
Ágústa Johnson