Tafil – Alprazolam

Spurningin: 

Fyrirspurn:
Góðan daginn!

Ég ákvað að senda inn fyrirspurn varðandi lyfið TAFIL með virka innihaldsefninu ALPRAZOLAM þar sem ég er gjörsamlega orðinn háður því.

Þetta byrjaði allt á haustmánuðum í fyrra(2006) að ég fór að finna fyrir doða í hnakkanum ásamt eyrnasuði og um mánuði síðar fór ég að fá magaverki sem ágerðust með degi hverjum(og urðu á endanum óbærilegir) og læknarnir prufuð fern magalyf og ekkert virkaði ásamt því að ég var sendur í heilascan og magaspeglun og ekkert fannst og það var ekki fyrr en í desember 2006 að þeir settu mig á tafil og vitið hvað maginn lagaðist.

Nú er ég búinn að vera á þessu lyfi í um 11 mánuði og hef tekið að meðaltali 2mg. á dag í þessa 11 mánuði og þetta lyf er algjört eitur það er svo sterkt og hef ég marg oft reynt að hætta neyslu þess en þá líður mér alveg skelfilega,ég verð allur dofinn, svimar og að ógleymdu magaverkurinn kemur aftur

Hvað er til ráða? Ég held að ég sé búinn að vera alltof lengi á þessu og sé hreinlega orðinn skemmdur hvað haldið þið?og hvað er málið með þennan doða í hnakka,eyrnarsuð og magaverk?  

p.s er búinn einnig að láta hnykkja mig og nudda alla vöðva

Kv. B

Svar:

Sæll

Alprazolam er svokallað benzodiazepine efnasamband en þekktasta lyfið í þeim flokki er sjálfsagt diazepam eða Valíum. Lyf í þessum flokki hafa bælandi áhrif á taugakerfið og nýtast vel gegn kvíða, svefnleysi og vöðvakrömpum svo eitthvað sé nefnt. Ef magaverkirnir stafa af vöðvakrömpum kann vel að vera að Tafil verki á þann sársauka vegna vöðvaslakandi áhrifa sinna. Á móti virka hefðbundin magalyf gegn of mikilli sýrumyndun í maga.

Umrætt lyf telst sjálfsagt ekki til mjög sterkra lyfja og ætti ekki að hafa skaðleg áhrif á annars heilbrigða einstaklinga sé það notað í viðeigandi skömmtum líkt og þú gerir. Almennt er ekki mikil hætta á fráhvarfseinkennum af völdum alprazolams sé lyfið notað í skamman tíma og/eða ekki sé hætt inntöku lyfsins of hratt.
Þú talar um að hafa verið á þessu lyfi í 11 mánuði og því er alls ekki útilokað að þú finnir fyrir áhrifum þess að hætta inntöku þess. Ég myndi mæla með því að þú minnkaðir skammtinn hægt og rólega; 2mg, 1,5mg, 1mg og 0,5mg þar sem hver skammtur er tekinn í til dæmis tvo daga svo dæmi sé tekið. Þú ættir samt að ráðfæra þig við lækninn því lyfseðillinn ætti að vera uppfærður í samræmi við breytinguna.
Mér þætti reyndar fróðlegt að vita hverskonar vanlíðan það er sem þú finnur fyrir þegar þú reynir að hætta inntöku lyfsins.

Annað sem hafa ætti í huga er að Tafil er ekki verkjalyf í sjálfu sér en vissulega er sjálfsagt að skoða notkun þess sem slíkt ef það virkar. Ef niðurstaðan verður sú að þú haldir áfram að taka lyfið þá ættirðu að spyrja lækninn hvort æskilegra væri að þú tækir inn Tafil Retard en þær töflur hafa forðaverkun og slík verkun er oftar en ekki hentugri en hjá hefðbundnum töflum. Þannig fæst jafnari verkun og einnig er talið að hætta á fráhvörfum sé minni þegar inntöku er hætt.

Ég get því miður lítið getið mér til um hvað veldur verkjunum og þeim einkennum sem talar um en doði og eyrnasuð gætu hugsanlega verið taugatengt og því spurning um að bera þetta undir taugasérfræðing.

Þórir Benediktsson
Lyfjafræðingur