Takmarkaður áhugi á kynlífi?

Spurning:
Þetta er ekki áríðandi fyrirspurn hvað varðar læknisfræði, en mjög mikilvæg fyrir mig. Málið er að ég hef alveg afskaplega takmarkaðan áhuga á kynlífi og nálgun við aðra manneskju. Stundum sekk ég jafnvel niður í óhugs hugsanir vegna kvíða míns við að kynnast manni og þurfa að stunda kynlíf. Ég geri mér grein fyrir því að ég skrifaði þurfa, en hugsunin varðandi þessi mál er þannig hjá mér núna og hefur verið meira og minna í sirka 6 ár. Ég hef verið með mönnum, mislengi á þessu tímabili og jafnvel stundum langað til að stunda kynlíf en með tímanum kemur þessi hugsun aftur og ég fer að leita afsakana til að sleppa við athöfnina. Minnsti hlýhugur frá manni getur valdið mér ónotum þegar ég er sem verst. Ég hef þróað allskyns varnarhætti og leiðir til höfnunar til þess að lenda ekki í aðstæðum sem leiða til of mikillar nálgunar, samt langar mig til að verða ástfangin. Í dag bý ég ein með börnunum mínum og hef komið mér upp ágætis velfarnaði á öðrum sviðum en þessu. Ég hef glímt við þunglyndi og geri að vissu leyti enn, en er að vinna í þeim málum með sérfræðiaðstoð. Mig langar að vita hvort það sé eitthvað meira sem ég get gert en að vera að reyna að nálgast andlegt jafnvægi, hvort það geti verið að þetta sé orðið að líkamlegu vandamáli.
Með kærri þökk og kveðju, Kvíðin

Svar:
Spurningar þínar eru tvær: hvort þú getir gert eitthvað frekar til að ná andlegu jafnvægi og hvort það geti verið að takmarkaður áhugi þinn á kynlífi geti orðið að líkamlegu vandamáli. 

Lítum á fyrri spurninguna: í fyrirspurn þinni koma fram skýrar vísbendingar um ótta eða hræðslu við kynlíf – þú nefnir óhug, kvíða og þú beinlínis forðist að lenda í aðstæðum sem leiða til of mikillar nálgunar. Óhugurinn sem þú segir að sæki á þig var ef til vill einhvern tíma eðlilegt viðbragð við erfiðum aðstæðum en virðist vera farin að trufla þig núna. Það má samt ekki gleyma því að áhugi á kynmökum getur verið takmarkaður af mörgum, eðlilegum ástæðum. En þegar óhugur og kvíði er farinn að ráða ríkjum er hæpið að hægt sé að tala um ,,frjálst val“ með að hafa kynmök eða ekki. Enda segir þú sjálf að þig langi til að verða ástfanginn. Ef þú treystir þér ekki til að lifa kynlífi framar en vilt samt fara í fast samband gæti þitt viðhorf og líðan auðveldlega skapað klemmu fyrir þig og þeim sem þú hrífst af. Að vissu leyti má líta á ,,takmarkaðan áhuga“ á kynlífi hjá þér sem tækifæri til þroska – það er viss vísbending eða áskorun til þín um að komast að uppsprettu óttans og byggja þig upp. Og á meðan óttinn ræður för er ,,áhugaleysið“ prýðis vörn gegn óþægilegum tilfinningum. Fyrst þú ert nú þegar í viðtölum, að sækja þér sérfræðiaðstoð, væri ekki úr vegi að skoða nánar með þessum meðferðaraðila hvaða ástæður geti legið að baki óhug og ótta hjá þér í sambandi við kynferðislega nálægð. Gæti þessi líðan þín tengst þunglyndinu? – Stundum er þunglyndi ein vísbending um að viðkomandi finnist hann ekki hafa stjórn á aðstæðum í sínu lífi. 
Svo var það seinni spurningin- getur takmarkaður áhugi orðið að líkamlegu vandamáli? Því getur enginn svarað eða vitað. Þó er hægt að segja að ef ótti þinn er mikill í aðstæðum, sem þér finnst krefjast mikillar nálægðar af þér og samtímis finnst að þú ráðir varla við, gæti það ýtt undir vöðvaspennu og þar með átt sinn þátt í að veikja eðlilegar varnir líkamans. En fyrst þú spyrð um þetta, velti ég fyrir mér hvort þú sért farin að taka eftir einhverjum líkamlegum einkennum hjá þér – sem þú sjálf heldur að gæti tengst ótta þínum við kynlíf??

Þú ert að sýna kjark með því að velta þessu fyrir þér, ræddu þetta mál við þinn meðferðaraðila og taktu eitt skref í einu.

Kveðja, Jóna Ingibjörg
Hjúkrunarfræðingur – kynlífsráðgjafi