Tannburstun ungabarna

Fyrirspurn:

Tannburstun hjá 14 mánaða gömlu barni

Ég á 14 mánaða gamla dóttur sem líkar ekki að láta tannbursta sig.  Hún fékk tennur um 7 mánaða gömul og er nú með 8 barnatennur.  Í hvert skipti sem kemur að því að bursta þessar fínu tennur bregst hún hin versta við og upphefst mikið stríð sem endar með illa eða óburstuðum tönnum og miklum gráti.  Þannig hefur þetta gengið frá upphafi. 

Ég hef tekið á það ráð að leyfa henni að vera með tannburstann sinn í fanginu á mér og naga hann, í þeirri von að nagið nuddi tennurnar aðeins og dreifi tannkreminu um góminn.  Ég var að vonast til þess að þetta færi að eldast af henni, þar sem hún er einnig mjög "kresin" á það sem hún borðar og drekkur, en hún er lítið fyrir vatn.  Því þætti mér gott að fá góð ráð frá sérfræðingi varðandi framhaldið, því ég hef áhyggjur af því að tennurnar séu ekki að hreinsast nægilega vel.

Með bestu kveðju,

stríðandi móðir

Svar:

Sæl,

Það sem mér dettur fyrst í hug er að þú prófir að sleppa tannkreminu við tannburstun. Stundum finnst börnum það vont og vilja þess vegna ekki leyfa að tennur þeirra séu burstarðar. Séstaklega í ljósi þess að hún vill ekki samþykkja allar tegundir af mat og drykk. Tannkremið virkar eins og sápa fyrir tennurnar og er því ekki nauðsynleg. Mikilvægara er að ná að busta tennurnar. Flúornum þarftu ekki að hafa eins miklar áhyggjur af strax –þú læðir svo tannkreminu inn þegar hún eldist og velur þá tannkrem með litlu bragði.  Eins er líka hægt að skapa leik um tannburstunina til þess að þessi athöfn verði skemmtileg. Hægt er að hugsa sér að tannbustinn hafi einhverja rödd og segi eitthvað skemmtilegt til þess að barnið venjist honum og þyki hann spennandi. Með set ég tengil á grein um tannvernd barna sem finnst á Doktor.is

Gangi ykkur vel,

Nína Hrönn Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur