Taugaáfall

Hvenær er hægt að segja að einhver hafi fengið taugaáfall, hvernig lýsir taugaáfall sér.

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Taugaáfall er í raun ekki læknisfræðilegt hugtak, en tengist oft þunglyndi og kvíðaröskun (eins og almenn kvíðaröskun og ofsakvíði).
Það er ekki til ein útskýring á taugaáfalli, oftast er þetta þegar álag og/eða andleg streita verður það óbærileg að einstaklingurinn hættir að geta sinnt athöfnum daglegs lífs.

Ástæður fyrir taugaáföllum

  • Lélegur svefn, eða erfiðleikar við að slaka á
  • Mikil viðvarandi álag í vinnu
  • Áföll, nýleg eða gömul sem er ekki búið að vinna úr – t.d. andlát fjölskyldumeðlims/ástvinar
  • Skilnaður/sambandsslit eða erfiðar breytingar í lífinu
  • Fjárhagserfiðleikar

Það sem einkennir einstaklinga í taugaáfalli:

  • Borða og sofa lítið
  • Einangra sig heima
  • Mæta ekki til vinnu
  • Forðast samkomur og samskipti við annað fólk
  • Hirða ekki um sig sjálf, þvo sér ekki og fara ekki í hrein föt td.

Dæmi um þau einkenni sem einstaklingar hafa lýst í taugaáfalli:

  • Ofsakvíðakast – brjóstverkur, öndunarerfiðleikar, hjartsláttatruflanir og fleira
  • Ofsóknaræði
  • Svefnleysi
  • Ofskynjanir

Hér getur þú lesið þér frekar til um taugaáfall og viðbrögð við því.

Ef þig grunar að þú sert að fá taugaáfall eða ert í taugaáfalli mæli ég með að þú hringir í heilsugæsluna þína og fáir viðtal við lækni, eða farir á bráðamóttökuna ef þetta er óviðráðanlegt.

 

Gangi þér vel,

Sigrún Sigurjónsdóttir hjúkrunarfræðingur