Teldanex eða Clarityn við frjókornaofnæmi

Spurning:

Ég er með frjókornaofnæmi, og var að lesa um Teldanex og Clarityn lyfin, hvort virkar betur? Svo sá ég að það má ekki drekka greipaldinsafa með Teldanex, gildir það um önnur ofnæmislyf? Hvaða áhrif hefur greip á ofnæmi? Er það rétt að ofnæmislyf virki bara í einhvern tíma og svo verði maður að skipta yfir í eitthvað annað lyf?

Kveðja

Svar:

Virkni þessara lyfja er einstaklingsbundin en hún er svipuð. Ef drukkinn er greipaldinsafi með Teldanex (terfenadín) getur það leitt til uppsöfnunar á óbreyttu terfenadíni hjá sumum sjúklingum. Við það getur svokallað QT bil lengst meira en ef bara er tekið Teldanex (ekki greipaldinsafi). QT bil er tími á milli rafboða í hjartanu og það er ekki gott að sá tími lengist. Það hefur ekki komið fram að þetta gerist með öðrum ofnæmislyfjum svo það ætti að vera í lagi að drekka greipaldinsafa með þeim, þó er óþarfi að bjóða hættunni heim því þó að ekki sé vitað til þess í dag að greipaldinsafi hafi þessi áhrif á önnur lyf getur annað komið í ljós með aukinni reynslu og þekkingu á þessum lyfjum. Við frjókornaofnæmi eru þessi lyf tekin í skamman tíma í einu (sumarmánuðir) og það þarf ekki að skipta um lyf til að halda verkun.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur