þetta varðar stöðugan og mikinn vindgang úr endaþarmi.

Komið þið sæl.
Mig langar að fá vitneskju um hver gæti verið orsök þessa mikla vindgangs sem ég hef verið með mjög lengi.
‘Eg er 87 ára ekkjumaður, bý einn 0g hugsa alfarið um mig sjálfur. Hef yfirleitt verið við góða heilsu allt mitt líf, hef þó farið í opna kransæða aðgerð 1991 og ósæða aðgerð (lagfærðar ósæðalokur) 2017.
Kom vel út úr báðu og mjög fllótur að jafna mig.Ég borða allan venjulegan mat hef mínkað kjöt át, en aukið grænmetis át, geng 3-4 km. 3svar í viku, sindi 500 m. 2svar í viku og glími við skákþrautir og Sudoku og spila brigds við tölvuna þess á milli.þætti vænt um ef þið gætuð gefið mér ráð til að lostna við þennan vanda.
Virðingarfyllst.

 

Komdu sæll og þakka þér fyrir fyrirspurnina.

Það er mjög gott hvað þú ert virkur og hugsar vel um sjálfan þig bæði hvað varðar hreyfingu og hugarleikifimi. Varðandi vindganginn er mataræði þitt líklegasta skýringin.

Eðlilegt telst að leysa vind 14-23 sinnum á dag. Of mikill vindgangur getur stafað af lélegri upptöku á kolvetnum.

Flestar fæðutegundir sem innihalda sykrur (kolvetni) geta valdið vindgangi. Aftur á móti valda fita og prótín litlum vindgangi.

Laktósi er efni sem finnst í flestum mjólkurafurðum og í ýmsum unnum matvælum, eins og brauði, morgunkorni og salatsósum. Meltingarensímið laktasi er nauðsynlegt til að melta laktósa. Algengt er að magn þessa ensíms minnki í fólki með aldrinum. Eftir því sem fólk eldist getur það því fundið fyrir meiri vindgangi eftir að hafa borðað fæðu sem inniheldur laktósa.

Flestar sterkjuríkar fæðutegundir eins og kartöflur, korn, núðlur og hveiti, mynda loft við niðurbrot í ristli.

Bestu ráðin við of miklu lofti í meltingarvegi og óþægindum sem fylgja því eru að breyta fæðuvenjum, taka inn lyf og reyna að gleypa minna loft.

Erfitt getur verið að mæla með því að fólk sneiði hjá vindlosandi fæðutegundum, þar sem þær eru oft hollar og æskilegar af þeim sökum, til dæmis grænmeti og ávextir, heilkorn og mjólkurafurðir.

Það er þó mjög einstaklingsbundið hvaða áhrif fæðutegundir hafa og því nauðsynlegt fyrir fólk að prófa sig áfram og finna sjálft út hverju er best að sleppa.

Til eru lyf við vindgangi sem eru ekki lyfseðilskyld. Þar er um að ræða sýrubindandi lyf, ýmist tyggitöflur eða duft sem freyðir þegar því er blandað í vatn. Einnig eru til laktasalyf til að hjálpa fólki sem þolir illa laktósa. Ennfremur eru önnur lyf sem læknar verða að vísa á ef viðkomandi sjúklingur er með meltingarkvilla.

Ef breytingar á mataræðinu hjálpa þér ekki ráðlegg ég þér að ræða við þinn heimilislækni um vandamálið.

Gangi þér vel

Sigríður Ólafsdóttir

Hjúkrunarfræðingur