Þunguð eða ekki

Hæhæ
Málið er að eg byrja alltaf a sama tíma a blæðingum en núna er ég 5 dögum of sein. Hef verið að fá svo kallaða túrverki en aldrei blæðir fyrr en núna kom smá aðeins í pappírinn og ennþá með smá verki. Tók þungunarpróf fyrir 5 dögum en kom neikvætt.
Getur verið að um þungun sé að ræða og þetta sé bara eitthvað því tilheyrandi? Se einhverskonar hreiðursblæðing?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina,

Eðlilegt getur verið að upplifa breytingar á tíðahring til skemmri tíma þar sem það eru margir þættir sem geta mögulega haft áhrif á hormónakerfi kvenna. Dæmi um þetta eru ýmis lyf (ss. getnaðarvarnarlyf, en getur einnig verið möguleg aukaverkun annarra lyfja), næringarskortur, streita og mjög mikil hreyfing.

Hvað varðar mögulega þungun þá getur það komið fyrir að kona fái neikvætt á heimaþungunarprófi þrátt fyrir að vera í raun barnshafandi. Slíkt gerist nánast eingöngu í tilfellum þar sem þungunarpróf var tekið „of snemma“, þannig að styrkleiki hCG hormóns er ekki orðinn mælanlegur í þvagi, eða ef mjög mikill vökvi var innbyrtur fyrir þvagsýnið þar sem það getur þá þynnt styrkleika hCG í þvagi.

Því er almenn ráðlegging að taka slíkt próf aftur eftir að minnsta kosti 1 viku frá fyrra prófi, ef grunur leikur á þungun.

Gott er að hafa það fyrir reglu að leita læknis ef breytingar á tíðarhring eru mjög óvanalegar fyrir viðkomandi, engin augljós skýring liggur fyrir (ss. breytingar á getnaðarvörnum), þeim fylgi önnur einkenni (ss. verkir eða önnur líkamleg eða hormónatengd einkenni) og ef þær valda miklum óþægindum eða vara til lengri tíma.

Gangi þér vel

Auðna Margrét Haraldsdóttir, hjúkrunarfræðingur