Sjötug móðirsystir mín á orðið í smá erfiðleikum með að muna full nöfn á fólki sem er ekki verulega tengt henni. Á þetta einkum við um föðurnöfn, en eftir nokkra umhugsun man hún þau. Hún talar sjálf um að hún sé lengur að muna nöfn á sjaldséðum hlutum sem hún notar kannski ekki oft. Getur þetta talist eðlilegt miðað við aldur hennar?
Góðan daginn og takk fyrir fyrirspurnina
Flestir þekkja það að hafa einhverntíman gleymt nöfnum, símanúmeri eða farið inn í herbergi og ekki munað hvers vegna eða hvað var ætlað að sækja/gera þar. Ungt fólk gefur slíku ekki mikla athygli en eftir því sem fólk eldist tekur það meira eftir því. Minnisleysi getur oft verið ergjandi en í flestum tilvikum er það ekkert áhyggjuefni. Minnisbreytingar vegna aldurs þýðir samt ekki endilega að einstaklingur sé komin með eða að þróa með sér heilabilun. Með hækkandi aldri eiga sér stað ýmsar lífeðlisfræðilegar breytingar sem geta haft lítilsháttar áhrif á heilastarfsemi. Það getur tekið lengri tíma að læra og muna upplýsingar og þegar fólk finnur fyrir því, á það til að túlka það sem raunverulegt minnisleysi eða byrjun á heilabilun. En ef fólk gefur sér smá tíma, koma upplýsingarnar til þeirra í flestum tilvikum.
Þetta ætti því ekki að vera neitt áhyggjuefni en ef hún færi að finna fyrir enn meira og ört vaxandi minnisleysi væri tími til að hitta lækni.
Vonandi svaraði þetta fyrirspurninni þinni
Kveðja,
Rebekka Ásmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur