Tíðahringurinn eftir pillunotkun

Spurning:

Góðan daginn Dagný

Ég er með eina litla spurningu. Ég hætti á pilluni við síðustu blæðingar, en ég var á blæðingum 12. ágúst og nú eru liðnir 33 dagar síðan. Í morgun tók ég óléttupróf og það var neikvætt. Ég veit ekki alveg hvað er að gerast.
Mér er óglatt við og við á daginn. Ég á tvö börn fyrir.
En nú skil ég þetta ekki alveg hvort það sé eitthvað hormónarugl eða hvort egglos hafi verið svona seint hjá mér. Áður en ég byrjaði á pillunni þá var tíðahringurinn hjá mér 7/32. Það væri gott ef þú gætir á einhvern hátt útskýrt þetta fyrir mér.

Með von um svar
Með fyrirfram þökk

Svar:

Sæl

Það er ekki óalgengt að fyrsti tíðahringur eftir pillunotkun ruglist aðeins – verður oft aðeins lengri. Það er þó ekki algilt og margar konur verða þungaðar strax í fyrsta tíðahring. Þau þungunarpróf sem eru á markaðnum eru nokkuð örugg en þau greina þó ekki HCG í þvagi fyrr en um 2 vikum eftir frjóvgun. Um sama leyti og þungunarpróf getur numið HCG fer konan oft að finna fyrir þungunareinkennum. Ógleði er sjaldan með þeim fyrstu en það kemur þó fyrir. Oftast er brjóstaspenna fyrsta einkennið. Prófaðu að gera þungunarpróf aftur eftir viku ef þú hefur þá ekki haft blæðingar. Ef ógleðin heldur áfram þótt þungunarpróf sé neikvætt ættirðu að leita læknis til að finna orsökina.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir