Tíðahringurinn styttist?

Spurning:
Mig langar til að vita hvort það sé eðlilegt fyrir konu 42 ára að tíðahringurinn styttist. Ég hef alltaf haft mjög reglulegar blæðingar og tíðahringurinn verið nákæmlega 28 dagar en síðan í haust hefur hann bara verið 22-23 dagar, er þetta eðlilegt? Er þetta byrjunin á breytingaskeiðinu eða eru þetta áhrif af lyfjunum sem ég er að taka? Þess skal getið að ég er gigtarsjúklingur og er að taka Methotrexate töflur 3 einu sinni í viku og Prednisólon 1-2 töflur á dag og Voltaren Rapið ef þarf. Ég var einnig að taka Arava töflur í 4 mánuði hætti á þeim í sept. vegna verulega mikils hárlos. Ég fór í gallsteinaaðgerð 2002 og þá í leiðinni var skorið á eggjaleiðarana hjá mér.
Með kveðju og von um svar

Svar:
Ágæti fyrirspyrjandi.
Það er ekki hægt að segja þetta sé óeðlilegt  og það er ekki óalgengt að truflun á stjórn tíðahrings verði upp úr fertugu, oft þó bara tímabundin, en samt getur verið allur gangur á því. Sumt af því sem þú telur upp getur valdið truflunum en einfaldast væri ef þú hefur óþægindi vegna þessa er að gæta að því með skoðun og blóðprufu hvað valdi trufluninni. Þó verður að hafa í huga að engin ástæða er til þess ef það veldur þér engum óþægindum.

Bestu kveðjur,
Arnar Hauksson dr med.