Tíðahvörf

Spurning:

Kæri læknir.

Ég er kona sem að er 50 ára og það var tekið úr mér legið fyrir 3 árum og hef ég verið með hormón undir húð síðan. En ég er ekki sátt, ég er ekki með nein hitakóf en ég svitna stundum á nóttunum. Þó er mér oftast kalt, jafnvel þótt ég sé undir dúnsæng og í hlýjum náttfötum og einnig er mér kalt á daginn. Ég er með miklar svefntruflanir þrátt fyrir að ég noti svefntöflur á hverri nóttu.

Önnur einkenni sem trufla mig einnig mjög mikið er að þegar ég leggst útaf og ætla að reyna að sofna, er þungur hjartsláttur sem er alveg upp í eyra.

Svar:

Komdu sæl.

Þegar leg er tekið er ekki alltaf sem þarf að gefa hormón strax, einkum ef eggjastokkar hafa verið skildir eftir og þeir ennþá starfandi. Hins vegar er líklegt að 47 ára kona hafi verið komin með einhver einkenni sem krefðust hormónauppbótarmeðferðar jafnvel fyrir aðgerðina. Þegar leg er tekið þarf ekki almennt að gefa progesterón og því getur lyfjagjöf undir húð sem er eingöngu östrogen, verið gott val, en slíkt lyfjaform gefur ekki eins jafnt hormónamagn í blóðrás eins og töflur eða plástrar og yfirleitt talsvert meira í byrjun, fyrst eftir að forðatöflunni er komið fyrir. Síðan fer það eftir öðrum þáttum, heilsu fyrir aðgerð, öðrum hugsanlegum sjúkdómum, mataræði og reykingum að ekki sé minnst á vinnu og hátterni hvernig hormón nýtist. Þá hafa önnur lyf einnig áhrif. Svefn- og hjartsláttartruflanir, sem og sviti, bendir til þess að önnur áhrif spili inni í líðan þína. Ég held þú þurfir að ráðfæra þig við heimilislækni þinn, eða sérfræðinga, því það hljómar eins og ef til vill væri hægt að gera einhverja bragarbót á líðan þinni.

Kveðja,
Arnar Hauksson, kvensjúkdómalæknir