Titrari í ástarleik á meðgöngu?

Spurning:

Ég er komin 5 mán á leið og við hjónin lifum mjög skemmtilegu og fjölbreyttu kynlífi. Við vorum að hugsa hvort að víbringurinn í titrurum gæti á einhvern hátt skaðað fóstrið? Við notum titrarann mikið og við ákváðum að geyma hann þangað til að við fengjum það staðfest að það sé í lagi að nota hann á meðan ég er þunguð.

Með fyrirfram þökk.

Hjón í fullu fjöru.

Svar:

Það er ánægjulegt að þið lifið góðu kynlífi. Titrarinn getur vissulega aukið ánægju í kynlífi og ætti að vera í lagi að nota hann útvortis en farið varlega í að setja hann djúpt upp í leggöngin þar sem leghálsinn er viðkvæmur og erting á hann getur rofið háræðar þannig að blæði úr honum. Einnig er möguleiki að svona titrandi erting á leghálsinn geti komið af stað samdráttum og útvíkkun. Látið vellíðan konunnar vera mælikvarðann á hvað er óhætt að gera og ef stelling, aðferð o.s.frv. er ekki þægileg fyrir hana, eða ef hún fær samdráttarverki eða óþægindi í kvið, notið þá aðrar aðferðir. Svo óska ég ykkur bara til hamingju með þetta góða samband og væntanlega fjölgun í fjölskyldunni.

Kveðja,
Dagný Zoëga, ljósmóðir