Spurning:
Góðan daginn, ég og maðurinn minn höfum verið að reyna að eignast barn núna í hálft ár og ég hef ekki verið á pillunni í þann tíma. Í hvert sinn sem ég byrja á blæðingum kemur mikil sorg yfir okkur, þráin er svo mikil. Ég er með frekar langan tíðahring eða 32 daga og blæðingarnar standa stutt yfir eða 4-5 daga. Ég hef verið að mæla hitann á hverjum morgni og fylgjast með einkennum eggloss. Í tíðahring nr. 4 fór ég til kvensjúkdómalæknis á 25dth til að athuga hvort það væri ekki allt í lagi, ég hafði fengið hitahækkun á degi 17 og hélt ég hefði haft egglos, en læknirinn sagði mér að eggjastokkarnir væru ekki búinir að losa egg þá, hann sendi mig í blóðprufu og allt kom voða fínt út úr þeim, að hans sögn. Ég er samt ekki alveg ánægð með þessa niðurstöðu því hann sagði að hann gæti ekkert gert meira fyrir mig fyrr en að ári liðnu. Ég get bara ekki beðið eins og einhver api í óvissu ef þetta er eitthvað sem hægt er að kippa í liðinn með einfaldri lausn, það er mikilvægara fyrir mig að verða barnshafandi heldur en allt annað. Er eðlilegt að hafa hitahækkun en ekkert egglos? Og önnur spurning, í þessum tíðahring e. nr 6 voru blæðingarnar í það stysta hjá mér eða rétt tæpir 4 dagar, hafa ekki verið alveg svona snubbóttar áður og á 8dth kom örlítið blóð hjá mér, hvað getur það merkt? Eitt enn, er ekki dálíðtið einkennilegt að kvensjúkdómalæknir hafi ekki símaviðtalstíma? Að maður geti ekki hringt og fengið viðtal við hann, nema láta hann hringja í mann á móti, og það dregst kannski einhverja daga?
Svar:
Komdu sælMér sýnist á öllu að þú hafir mikla þörf fyrir stuðning í því sem þú ert að takast á við. Það er ekki gott að festast svo í því að vilja eignast barn að ekkert eða fátt annað komist að. Það er margt jákvætt í því sem þú varst að segja, þú hefur reglulegan tíðarhring sem eykur verulega líkurnar á því að allt sé í lagi. Læknir þinn tók blóðprufu hjá þér og sagði að allt væri í fína lagi. Það er oft talað um það að það geti tekið konur nokkurn tíma að komast almennilega í gang eftir að hafa verið á pillunni og það er ekki liðið nema hálft ár, sex tíðarhringir sem telst ekki langur tími. Ef þú værir 38 ára þá væri kannski ástæða til að örvænta en þú ert ung og hefur tíma til að vera róleg í hálft ár í viðbót og sjá til hvort þetta gerist ekki bara af sjálfu sér. Ef ekkert hefur gerst að hálfu ári liðnu þá er orðin ástæða til að tala aftur við lækninn. Það er ekki til nein töfralausn og þegar svo er komið að það þurfi að fara að skoða hlutina, þá þarf að athuga bæði þig og manninn þinn (sáðhlutfall hjá honum), hormónastrfsemi þína sem þó virðist í lagi, þar sem búið er að taka blóðprufu og fleira. Þetta er ekki einfaldur ferill og engar töfralausnir til.Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það að kvensjúkdómalæknir hafi ekki símatíma, læknar ákveða alveg sjálfir hvernig þeir vilja þjónusta sína viðskiptavini. Hitahækkun getur að sjálfsögðu einnig komið vegna sýkingar af einhverju tagi og er aldrei hægt að vera 100% viss um að hitahækkunin sé vegna eggloss. Það er mikilvægt fyrir þig að vita að þegar hitatoppur kemur hefur egglos átt sér stað, svo þá ætti sæðið að vera í eggjaleiðurum að bíða eftir að fá að frjóvga eggið. Best er því fyrir þig að kortleggja tíðarhring þinn til þess að vita hvenær í tíðarhringnum egglos er hjá þér. Er það t.d. alltaf í kringum 17. dag, þá þarf sæðið að vera komið á sinn stað á 17 degi! Eða hin leiðin, sem er að reyna að slappa af yfir þessu öllu og halda einfaldlega áfram að vera til og sjá hvað næsta hálfa ár ber í skauti sér ef ekkert þá er ástæða til að leita aftur til kvensjúkdómalæknis, fara að skipuleggja samfarir, mæla hita, fara í þær rannsóknir sem þarf að fara í o.s.frv. Ég veit að það er ekki auðvelt að hugsa um eitthvað annað þegar maður er kominn inn í þennan fasa og tilbúinn til að eignast barn. En það má reyna að hafa um eitthvað annað að hugsa, sumir hafa þá trú að það virki vel að vera kringum ungviði, svo það að passa fyrir vinkonurnar getur virkað vel. (Hvolpur?)Gangi ykkur vel :o)Með góðri kveðju,Jórunn FrímannsdóttirHjúkrunarfræðingurwww.Doktor.is