Túrverkir

Af hverju fá konur túrverki? Og hvers vegna eru þeir mismiklir eftir konum?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Orsakir túrverkja eru samþættar og hafa mest með hormónabúskapinn að gera. Í stuttu máli valda hormón því að legið dregst reglulega saman á meðan á blæðingum stendur og slímhúðin sem hefur byggst upp og þykknað í tíðahringnum losnar frá legveggnum.

Þessir krampar í leginu valda því að blóðflæði til legsins skerðist á meðan og það veldur verkjunum.

Verkirnir eru einmitt mismiklir eftir konum. Það er vegna þess að kramparnir eru missterkir og skerðing blóðflæðis til legsins því mismikið.

Túrverkir er frekar algengir.  Áætlað hefur verið að yfir helmingur allra kvenna finni fyrir túrverkjum í einhverri mynd og að þeir séu miklir hjá um 15% kvenna.

Um 3% kvenna fá svo slæma verki að þær verða óvinnufærar 1-2 daga í hverjum einasta mánuði.

Ef þú vilt fræðast meira um túrverki þá er hér slóð á afar áhugaverð grein,  fleiri upplýsingar hér  og hér er líka fróðleikur

Gangi þér vel,

Svanbjörg Pálsdóttir, hjúkrunarfræðingur.