Tveggja ára og gnístir tönnum

Spurning:

Halló.

Sonur minn, tveggja ára gamall, gnístir mikið tönnum á næturna, sérstaklega fyrstu 2-3 tímana eftir að hann sofnar. Þegar verst lætur er eins og hann sé að bryðja brjóstsykur. Hann tók upp á þessu fyrir 2-3 mánuðum síðan. Mér finnst vera farið að sjá á tönnum hans. Hvað er til ráða?

Með kveðju.

Svar:

Halló.

Gnístur eins og þú lýsir hjá syni þínum þarf ekki alltaf að skaða tennurnar. En þar sem þér virðist vera farið að sjá á tönnum hans er það ærin ástæða til þess að hyggja að nánar.
Helst yrði til ráða að gera stráksa mjúka bitskinnu sem hann svæfi með, tönnunum til verndar. Alls er þó óvíst um hvernig hann, svo ungur sem hann er, tæki því að hafa slíkan aðskotahlut í munni sér en það er bara ein leið til þess að komast að því.
Leitaðu fyrst til heimilistannlæknis þíns og athugaðu hvað hann hefur til málanna að leggja – hann kann að vilja vísa málinu til barnatannlæknis.

Gangi þér vel.

Ólafur Höskuldsson, barnatannlæknir