Tvíburameðganga – hver er munurinn?

Spurning:

Komdu sæl og blessuð Dagný.

Ég er nýlega ófrísk að tvíburum eftir glasafrjóvgun. Ég á eitt barn fyrir svo að mig langar til að vita hvað er öðruvísi við tvíburameðgöngu en að ganga með eitt barn. Er eitthvað sem ég þarf að passa uppá (t.d. hvíld, vítamín eða eitthvað þannig) og er mér hættara við einhverjum erfiðleikum eins og t.d. hækkuðum blóðþrýstingi eða eitthvað slíkt.

Með bestu kveðju,

Tilvonandi tvíburamamma.

Svar:

Sæl vertu tilvonandi tvíburamamma.

Jú það er rétt hjá þér, tvíburameðganga er um margt ólík því að ganga með eitt barn. Þú verður t.d. þyngri og sverari og það mun fyrr á meðgöngunni. Eins er algengt að konur í tvíburameðgöngu þjáist af járnskorti og þurfi snemma að taka aukajárn og þær þurfa vitaskuld mun meira af öllum næringarefnum og vítamínum. Það er skynsamlegt að taka lýsi og fjölvítamín án A og D vítamíns, því lýsið inniheldur fitusýrur sem ekki er að finna í neinu öðru og eru nauðsynlegar fyrir myndun frumuhimna og því góðar fyrir fóstrin. Hins vegar getur verið skaðlegt að fá of mikið A og D vítamín og því þarf vítamínið sem tekið er með lýsinu að vera A og D vítamínlaust. Eins þarftu að passa vel upp á næringuna og gæta þess sérstaklega að fá nóg af próteinum (fiskur, kjöt, egg, baunir og mjólkurvörur) því þau eru byggingarefni líkamans og þú ertu jú að búa til heila tvo líkama til viðbótar við að halda þínum gangandi. Þú finnur sjálf hvenær þú ferð að þreytast en oft eru konur í tvíburameðgöngu orðnar mjög þreyttar upp úr 30 vikna meðgöngu og margar hætta þá vinnu. Minniháttar kvillar eins og ógleði og brjóstsviði eru oft meira afgerandi í tvíburameðgöngu og einnig eru tvíburameðgöngur taldar áhættusamari, þar sem auknar líkur eru á t.d. fyrirburafæðingu og meðgöngueitrun. En með skynsamlegu mataræði, hóflegri líkamsþjálfun og nægri hvíld minnka líkurnar á slíkum fylgikvillum. Njóttu þess bara að vera orðin barnshafandi og gangi þér þetta vel.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir