Tvíburameðganga – upplýsingar

Spurning:

Sæl Dagný!

Ég fékk nýverið að vita að ég geng með tvíbura og voru þær fréttir einungis enn meiri ánægja fyrir mig. Málið er hinsvegar það, að þetta er mín fyrsta meðganga og ég vil vita nákvæmlega hvað er að gerast hverju sinni. Ég var komin vel inn í málið þegar þetta var aðeins eitt fóstur, en þegar þau voru orðin tvö finn ég hvergi fullnægjandi upplýsingar. Er t.d. hraði þroska og vaxtar sá sami og ef ég gengi með eitt. Mér þætti vænt um ef þú gætir bent mér á fræðsluefni sem ég get sökkt mér í.

Svar:

Sæl og til hamingju með þetta allt saman.

Því miður er ekki til mikið af efni á íslensku um tvíburameðgöngu en þó gæti Borgarbókasafnið átt eitthvað. Það væri sniðugt fyrir þig að hafa samband við tvíburafélagið og kanna hvort ekki finnst eitthvað gott hjá þeim. Eins er hægt að grufla heilmikið á netinu bara með því að slá inn leitarorðið „twins" eða „multiple pregnancy".

Hvað varðar vöxt og þroska tvíbura þá eru þeir oftast svipaðir og einburarnir en tvíburameðganga er oftast 2 – 4 vikum skemmri en einburameðganga vegna þess hve mikið tog kemur á legið. Þess vegna fæðast tvíburarnir oftast aðeins fyrir tíman og því geta fylgt ýmsir erfiðleikar, sérstaklega við brjóstagjöfina, fyrir nú utan að það er vitaskuld meira púsl að annast tvö börn en eitt.

Vonandi gengur þetta vel hjá ykkur.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir