Tvísýni

Hvað getur það verið þegar kemur allt í einu þrýstingur í höfuðið sem leiðir í vinstra auga fylgir svimi stundum ógleði og tvísýni þarf að loka auganu í sma stund til að jafna mig ?

Góðan daginn og takk fyrir fyrirspurnina

Það er ansi margt sem getur komið til greina út frá þessum einkennum. Ég mun eingungis taka fram eina helstu ástæðu þessara einkenna.

Höfuðverkur eða mígreni. Næstum allir upplifa einhverntíman höfuðverk og flestir þeirra sem hafa fengið höfuðverki fá þá aftur. Minni háttar höfuðverkur hverfur venjulega með smá hvíld, vökva og inntöku vægra verkjalyfja. Ef höfuðverkur er slæmur, kemur skyndilega eða er stingandi eru þættir á borð við heilablóðfall, æxli eða blóðtappi það helsta sem fólk hefur áhyggjur af. Sem betur fer eru slík vandamál sjaldgæf og oft önnur ástæða að baki.

Höfuðverkur á borð við mígreni eru algengir og geta orsakað líkamleg einkenni. Mígrenis tengdur höfuðverkur getur valdið mikilli vanlíðan, kemur oft í köstum og finnst venjulega einungis öðru megin. Helstu einkenni mígrenis eru ógleði, uppköst, svimi, þokusýn, ljós og hljóðfælni ásamt fleirum einkennum. Það er margt sem getur orsakað mígreni, eins og hormónabreytingar, fjölsyldusaga, umhverfisaðstæður, stress, koffín, lyf, svefnvenjur og ýmis heilsufarsvandamál.

Ég tek fram að þetta svar tengist einungis þeim einkennum sem tekin voru fram hér að ofan og er margt annað sem getur orsakað þessi einkenni. Til að fá greiningu og meðferð ráðlegg ég þér að fara til læknis sem fyrst. Læknir skoðar meðal annars heilsufarssögu þína, lyf sem þú ert að taka og pantar rannsóknir í lokin ef hann metur þess þörf. Þegar slæmir höfuðverkir eru annars vegar á ekki að hika við að fara til læknis.

Gangi þér vel

Kveðja,

Rebekka Ásmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur